Menningarverðlaun Árborgar

Auður I. Ottesen, ritstjóri tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn, hlaut á dögunum menningarviðurkenningu Sveitarfélagsins Árborgar 2022.

Frá því að Auður flutti á Selfoss árið 2011 hefur hún verið virk í viðburða- og námskeiðahaldi bæði í sveitarfélaginu og utan þess. Með menntun sem húsgagna- og húsasmiður, garðyrkjufræðingur, þátttöku í fjölda námskeiða og handhafi PDC, Permaculture Design Certificate ber Auður marga titla og lætur til sín taka hvar sem hún mætir.

Hjónin Auður og Páll Jökull Pétursson eiga útgáfu og þjónustufyrirtækið Sumarhúsið og garðurinn og stendur Auður í dag fyrir útgáfu tímarits og bóka, heldur námskeið og stýrir sýninga- og ráðstefnuhaldi fyrir ólíka hópa af öllum stærðum.

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn kom fyrst út árið 1993 og fyrstu sjö árin var tímaritinu dreift frítt til sumarhúsaeigenda undir nafninu Sumarhúsið. Árið 2009 bættist svo við farsælt námskeiðahald hjá Auði, meðal annars í ræktun mat- og kryddjurta. Um 1.700 nemendur hafa sótt námskeið Sumarhússins og garðsins sem haldin hafa verið víða um land.

Grenndargarðar og stefnumót
Árið 2014 óskaði Auður eftir samstarfi við Sveitarfélagið Árborg við að koma upp grenndargörðum á Selfossi til að efla þátttöku íbúa í ræktun á matjurtum. Auður hefur haldið utan um skipulagningu og viðhald á grenndargörðum á Selfossi. Auður hefur einnig verið í forsvari fyrir gróðursetningu og fegrun við hundasleppisvæðið á Selfossi.

Frá 2014 hefur Auður árlega haldið fjörugan markaðsdag með sýningu og sölu á plöntum, handverki og listmunum í Fossheiðagarði þeirra hjóna við Múlatorg. Næsta Stefnumót við Múlatorg verður haldið laugardaginn 16. júlí nú í ár.

Menningarviðurkenningin var afhent á hátíðinni Vor í Árborg en það var Guðmundur Kr. Jónsson sem afhenti Auði verðlaunin fyrir hönd frístunda- og menningarnefndar Árborgar.

Frétt á www.sunnlenska.is