Markaður Sumarhússins og garðsins

Á morgun laugardaginn 27. júní verður fjórði laugardagsmarkaður Sumarhússins og garðsins á þessu sumri. Við verðum með plöntur og bómaker til sölu í garðinum okkar í Fossheiði 1 á Selfossi. Grænmetisplöntur, kryddplöntur og fjölæringar í leirpottum og steinkerjum. Opið verður kl 14-17.

Helga-Thorberg_9478.jpg

Heiðursgestur markaðarins er Helga Thorberg garðyrkjufræðingur og leikari. Hún er einstaklega skemmtileg kona sem mörgum er minnistæð sem Henrietta í gríni með Eddu Björgvinsdóttur. Helga rak blómabúð í miðbæ Reykjavíkur í áravís og eftir að hún lauk námi frá Garðyrkjuskólanum hefur hún að mestu unnið við blómaskreytingar. Hún mun spjalla við gesti og segja frá tildrögum bókar sinnar Sexbomba á sextusaldri sem gefin var út af Sumarhúsinu og garðinum.

Mikið úrval steinkerja frá Steinasteini. Fleiri gerðir komnar síðan síðast. Kerin eru endingargóð, þola vetrarfrost og haggast ekki í roki. Við bjóðum samplantanir með sígrænum fjallaplöntum og kryddi í leirpottum. Einnig jarðarberjaplöntur og ferskir tómatar og æt sumarblóm, grænmetis- og kryddplöntur auk nokkurra tegunda af fjölærum tegundum til sölu. Útbúum eftir pöntun steinker frá Steinasteini með fjallaplöntum á svalirnar, veröndina og sem skreytingar á leiði.

Bjóðum einnig forræktaðar krydd- og grænmetisplöntur úr ræktun garðyrkjufræðinganna Auðar I. Ottesen og Óla Finns. Óli ræktar sínar plöntur í nýstofnuðu fjölskyldufyrirtæki Kím. Fjórar plöntur saman kosta aðeins kr. 550.-