Garðverkin í sumarbyrjun

Texti: Auður I. Ottesen. Myndir: Páll Jökull Pétursson.

Yndislegt gluggaveður og veðurblíða hvetur mann til að drífa sig út í garð. Vorið hefur verið svalt, mars kaldur en aprílhitinn í meðallagi. Óskandi er að sumardagurinn fyrsti beri með sér bjarta og ljúfa daga svo maður geti farið berfættur út í garð.

Nú er tími til að hugleiða hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Náttúran er enn í vetrardvala og ef einhver á eftir að klippa limgerðið þá er bara að drífa sig. Tímabært að snyrta rósirnar og runnana í garðinum. Hlúa að viðkvæmum plöntum með því að setja greinar yfir þær og sveipa striga yfir sígrænan lággróður til að verja hann fyrir sterkri vorsólinni. Viljið þið gefa grannanum af fjölæringunum í garðinum þá er tíminn núna að skipta þeim ef þeir eru orðnir frekir á plássið. Svo má fara að eiga við mosann, stutt í fyrsta slátt og koma kartöflunum niður.


Mosinn dafnar í sumarbyrjun

Mosinn (Bryophyta) dafnar vel í sumarbyrjun. Hann vex við allt að 4°C hita og er því að spretta löngu áður en grasið fer af stað á vorin og verður þá áberandi í grasfletinum. Mosinn þrífst vel í skugga og þéttum jarðvegi. Ef mönnum líkar ekki mosinn þá er lag að raka hann úr sverðinum og setja í safnhauginn þar sem hann umbreytist í mold. Sé jarðvegurinn þjappaður þykir gott að stinga með stungugafli í svörðinn til að mynda holrými sem fyllt er með fínum sandi til að auka loftun í sverðinum. Svo er gott að kalka flötinn og bera á grasið alhliða áburð til að auka grassprettuna og efla ræturnar.

Vorlaukarnir eru gleðigjafi

Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, glitfíflum (Dahlia), snotrum (Animone) og liljum (Lilium). Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum eða gróðurhúsinu í maí á meðan maður bíður eftir því að það verði nógu hlýtt til skunda út í garð og gróðursetja þau.


Bleikja rabarbarann
Maður er sólginn í ferskt úr garðinum og það sem sprettur einna fyrst á vorin er hjálmlaukurinn (Allium x proliferum) og einnig graslaukurinn (Allium schoenoprasum) sem er kominn af stað og um að gera að nýta sér hann. Nýsprottnir stönglarnir af brúsku (Hosta) eru notaðir í matseld í Asíu og ég hvet ykkur til að prófa að matreiða þá. Eins að flýta fyrir rabarbaranum (Rheum x cultorum) með því að setja stóran pott yfir einn eða tvo hnausa til að bleikja leggina. Hann vex í myrkrinu og leggirnir verða rauðleitir og sætari á bragðið og því góðir í fyrsta rabararagraut sumarsins.


Góður tími til að gróðursetja tré

Nú þegar fínrætur trjáa og runna myndast eftir vetrardvala þá er kjörið að huga að gróðursetningu og flutningi ef það stendur til. Gætið að því að rótarstinga góðan hnaus með runnum og trjám sem á að flytja og vanda verkið þannig að hnausinn haldist saman. Sé plantan gömul þarf að flytja tré í áföngum, rótarstinga til hálfs í kringum plöntuna að vori og flytja hana síðan í haust þegar lauf hafa fallið. Yfir sumarið myndar rótin nýjar rætur næst stofninum þar sem stungið var. Það auðveldar plöntunni að koma sér fyrir á nýjum stað og eykur líkurnar á að flutningurinn takist.


Þykir þjóðlegasti siður

Nú er tíminn til að spíra kartöflurnar (Solanum tuberosum). Brýnt er að nota viðurkennt útsæði og freistast ekki til að nota kartöflur sem keyptar eru í matvöruverslunum. Bakteríur, sveppir og vírusar geta gert usla í ræktuninni. Nokkrir bændur á Íslandi rækta útsæðiskartöflur undir eftirliti til að tryggja að neytendur eigi aðgang að góðu útsæði án sjúkdóma. Til að flýta fyrir þá eru kartöflur látnar spíra í 4-6 vikur í birtu en ekki í beinni sól. Hefðbundið kartöflubeð er stungið upp, gott er að auka frjósemi jarðvegsins með um fjórum skóflum af hrossaskít  eða um einum lítra af hænsnaskít á hvern fermetra. Til að fullnægja áburðarþörfinni, ef kosin er lífræn ræktun, þá er til bóta að koma til móts við snefilefnaþörfina með með 1-2 lítrum af þörungamjöli á hvern fermetra. Kjósi fólk að nota Blákorn þá inniheldur kyrnið öll þau næringarefni sem kartaflan þarfnast. Borið er tvisvar til þrisvar á yfir sumarið um þrjár matskeiðar á hvern fermetra.

Gott er að hafa í huga eftirfarandi:

  • Of lítið köfnunarefni dregur úr uppskeru.

  • Of mikið köfnunarefni veldur því að kartöflugrösin verða stór, undirvöxtur lítill og þurrefnið í þeim minnkar.

  • Kalí eykur uppskeru, of mikið minnkar þurrefni.

  • Kalísúlfat hentar kartöflum, ekki kalíklórid.

  • Aukið fosfór eykur þurrefnisinnihald og þar með gæði kartafla.

  • Kalk er að öllu jöfnu ekki borið á kartöflugarða.

Millibil 25-35 sm milli kartaflanna og 35-50 sm milli raða. Gott er að setja nýslegið gras yfir moldina til að hindra vöxt illgresis. Svo ber að hafa í huga, til að forðast jarðvegsþreytu og sjúkdóma, að rækta kartöflur ekki lengur en fjögur til fimm ár á sama stað.


Sáning krydds, matjurta og sumarblóma

Sáning er gefandi iðja, uppskeran er fyrirheit um blómríkt sumar og gæði á matardiskinn. Nú hugum við að sáningu sumarblóma, matjurta og krydds. Í blómaverslunum fæst úrval af fræi sem er yfirleitt af góðum gæðum. Hægt er að velja fræ sem hefur frjóvgast náttúrulega, svokallað F1 fræ þar sem foreldrarnir eru sérvaldir vegna gæða og útlits. Val á F1 fræi getur skipt máli ef maður vill einsleitar plöntur og er helst notað í matjurta- og sumarblómaræktun. Svo er hægt að velja fræ þaðan sem fræplönturnar hafa verið ræktaðar með lífrænum hætti.

Stjúpur, fjólur, fagurfífill og rósmarin eru tegundir sem þurfa langt vaxtartímabil og er sáð fyrir í febrúar. Fjölda kryddtegunda, s.s. salvíu, majoran, hrukkblaða steinselju, lavender, oregano, garðablóðbergi ,sítrónumelissu, stilkselleríi, púrru og öðrum lauktegundum er sáð í mars fram í byrjun apríl. Sumarblómafræ sem þarf að sá í mars eru brúðarauga, frúarhattur, meyjarblóm, brúðarstjarna, daggarbrá, fiðrildablóm, hádegisblóm, ilmskúfur og skógarmalva. Öðrum krydd-, grænmetis- og sumarblómategundum er sáð um miðjan apríl og svo eru enn aðrar sem sáð er beint út í beð í maí og júní. En hafið hugfast að sáningartíminn er ekki alveg heilagur, heldur er það vaxtartíminn, hitastig, birta og næring sem eru lykilinn að góðri ræktun. Miðað er við að forræktuðu plönturnar séu settar út er jarðvegurinn hefur náð um 8°C og lofthitinn um og yfir 6-8°C.

Sáning

Við sáningu þarf að gæta vel að hreinlæti, þrífa öll ílát vel til að fyrirbyggja sveppasýkingu og alltaf má eiga von á að sniglaegg leynist í notuðum ílátum. Auk potta og bakka er hægt að nota jógúrtdósir, skyrdollur og bakka undan kjötvöru séu þau götuð til að vatn eigi greiðan aðgang frá þeim. Algengast er að nota sáningarmold sem er næringarlítil mold en ef kosið er að sá beint í pott þar sem planta fær að vaxa upp er klókt að vera með næringarríkari mold að hluta og sáðmold í efstu tveimur sentimetrunum. Fræin spíra í sáðmoldina og rótin vex síðan niður í næringarríkari mold. Með þessu sparast að dreifplanta í stærri pott. Sáningarmoldin þarf að vera vel rök þegar sáð er. Í fræbréfum er mismikið af fræi og oft dugar það til nokkra ára. Sáið ofan á sáðmoldina þannig að eilítið bil sé á milli fræjanna. Yfir þau er síðan sáldrað, u.þ.b. tvöföldu lagi af mold eða fínum vikri til að hylja þau. Merkið svo hverja tegund með merkimiða og vökvið varlega yfir. Gott er að setja plast yfir sáninguna eða dagblað til að halda raka að moldinni á meðan fræin eru að spíra. Yfirleitt er fræ um 3-14 daga að spíra og plöntunum, sem er sáð í bakka eða potta, þarf að dreifplanta eftir að kímblöðin, sem eru fyrstu tvö blöðin sem vaxa upp af fræinu, hafa vaxið.

Heppilegt hitastig við sáningu fyrir flestar tegundir er um 20-25°C en við ræktun þarf það að vera lægra, um 12-17°C. Sé hitastigið hátt og lýsing ónóg hættir plöntunum við að spíra og verða renglulegar. Góð birta er nauðsynleg og nú þegar daginn er farið að lengja er dagsljósið nægilegt við glugga. Sé það ekki nóg getur verið þörf á að nota raflýsingu til að fullnægja þörfum plöntunnar fyrir birtu.

 

Haustið er komið

Gjáin í Þjórsárdal

Gjáin í Þjórsárdal.

Haustlitirnir njóta sín í þverrandi birtu og ökuferð í skóglendi, ganga um berjavaxnar fjallshlíðar og garðinn er sannarlega augnakonfekt. Ég verð með námseið í vistrækt og hraukbeðagerð í mánuðinum og við Petra Stefánsdóttir blómaskreytir höfum verið að safna að okkur efnivið í okkar árlega haustkransanámskeið. Námskeiðið sló í gegn í fyrra og skráning á námskeiðin fer vel að stað í ár. Við verðum með Opið hús – haustfagnað, 22. október í Fossheiði 1 á Selfossi. Takið daginn frá og hjartanlega velkomin.

 

Laufið og sölnuðu stönglarnir

Ekki amast yfir laufinu, laufið er teppið sem þekur jarðveg og veitir honum skjól. Þykk lög af því eru ekki heppileg á grasfletinum og því skynsamlegt að raka þau og setja út í blómabeðin eða geyma til íblöndunar við lífrænar eldhúsleifar fyrir veturinn. Laufið verður orðið að mold að vori og aðgengileg fæða fyrir ánamaðka er þeir skríða upp eftir vetrardvala. Eins ættuð þið ekki hreinsa burt visna stöngla af fjölærum plöntum. Leyfum þeim að vera þær hlífa rótinni yfir veturinn.

 

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Nú er tími haustlaukanna

Haustlaukranir mynda rætur fyrir frost og eru tilbúnir að vaxa strax er hlýnar á vorin. Við hvetjum garð- og sumarhúsalóðaeigendur að kíkja á úrvalið sem er afar fjölbreytt í ár. Klókt er að velja laukategundir sem blómgast á mismunandi tímum og setja niður í þyrpingar í beðin, crókusa í grasflötina, túlípana og páskaliljur í beðin og keisarakrónuna þar sem vænta má músagangs því litlu nagdýrunum hugnast ekki lyktin af lauknum. Þumalputtareglan í gróðursetningunni er að laukarnir far þrisvar stærð lauksins niður og bilið á milli laukanna er áþekkt. Laukar gera mikið fyrir garðinn, þeir eru ódýrir og hægt er að velja milli fjölda tegunda, hæðar, blómlita og lögunar.

 

Doka við með snyrtingu trjáa

Ekki klippa trjágróður á haustin sem móttækilegur er fyrir átusmiti. Áta er sveppasjúkdómur sem herjar á lerki, reyni, gullregn og víði. Gróin eru í mesta mæli á sveimi á haustin og eiga greiðan aðgang að sárinu sem myndast þegar greinar eru sneiddar af trjánum. Bíðið fram í febrúar með snyrtingar á þessum tegundum.

 Safnið fræjum af fjölæringum

Er vorar er spennandi að eiga fræ til að láta spíra meðan vorsins er beðið. Notarlegt er að sjá nýgræðinginn teygja sig upp úr moldinni meðan enn er kalsi í veðri og gróandinn enn í dvala utandyra. Safnið endilega fræjum, þau sem ekki þurfa kaldörvun eru þurrkað og geymd á svölum stað fram í mars – apríl og þá er þeim sáð.

Garðverkin í mars og apríl

Texti: Auður I. Ottesen. Myndir: Páll Jökull

Við búum í harðbýlu landi og höfum undanfarið fengið að finna fyrir þrautum þorrans og góunnar með stormi og snjókomu. Veðurviðvaranir með gulum og appelsínurauðum lit á veðurkortinu hafa verið nokkuð algengar og drjúgur tími hefur farið í að moka snjó og skafa hrímið af bílrúðunum. Í öllum látunum er náttúran í vetrardvala. Til að garðaflóran beri ekki skaða þá getum við hlúð að því viðkvæmasta, með því að setja greinar yfir smáplöntur og sveipað striga, til að verja sígræna runna fyrir sterkri vorsólinni.

Mars og apríl er forræktunartími sumarblóma, krydd- og matjurta. Hér er listi yfir nokkrar þeirra tegundir matjurta og sumarblóma sem sáð er til í mars og apríl. Sáð er við stofuhita en ræktunarhitastig smáplantnanna er 12-17°C hiti. Ef hitastigið í ræktuninni er of hátt hættir plöntunum til að spíra, sem þær gera einnig ef birtan er ekki næg.

Sáning í mars:

Fagurfífill (Bellis perennis)
Brúðarauga (Lobelia erinus)
Frúarhattur (Rudbeckia hirta)
Meyjablómi (Godetia grandiflora)
Brúðarstjarna (Cosmos bipinnatus)
Daggarbrá (Leucanthemum paludosum)
Hádegisblóm (Dorotheanthus bellidiformis)
Skógarmalva (Malva sylvestris)
Sólblóm (Helianthus annuus)
Skjaldflétta (Tropaeolum majus)
Rósmarín (Rosmarinus officinalis)
Salvía (Salvia officinalis)
Blaðlaukur (Allium ampeloprasum var. porrum)
Majoram (Origanum majorana)
Lavender (Lavandula angustifolia)
Garðablóðberg (Thymus vulgaris)
Bergmynta (Origanum vulgare)
Sítrónumelissa (Melissa officinalis)
Stilksellerí (Apium graveolens)
Vorlaukar (Allium fistulosum)
Tómatar (Solanum lycopersicum)
Chili-pipar (Capsicum)

Sáning í apríl:
Káltegundir (Brassica oleracea)
Gúrkur (Cucumis sativus)
Salattegundir (Lactuca sativa)
Basilika (Ocimum basilicum)
Aftanroðablóm (Lavatera trimestris)
Fiðrildablóm (Nemesia strumosa)
Ilmskúfur (Matthiola incana var. annua)
Skrautnál (Alyssum maritimum)
Steinselja, hrokkin og slétt (Petroselinum crispum)

 

Hugum að smáfuglunum í frostinu
Á veturna bítur frostið og vindur gnauðar. Smáfuglarnir eiga þá oft erfiða daga og skortir vatn og mat. Fita gefur þeim orku í kuldanum og er því gustuk að gefa þeim brauðmola vætta úr olíu eða fituafskurð af kjöti. Þröstur og starri gæða sér á eplum og rúsínum og auðnutittlingurinn kýs.

Rabarbarinn bleiktur
Víða tíðkast erlendis á vorin að setja stóran pott yfir rabarbarann þegar hann er um það bil að hefja vöxt. Í myrkrinu verða leggirnir rauðleitir og sætari á bragðið og það er ljúft að laga sér rabarbarasúpu um miðjan maí.

Vorlaukar ódýrir gleðigjafar EÐA Ódýrir vorlaukar, góðir gleðigjafar
Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, dalíum, anímónum og liljum. Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum á meðan maður bíður eftir því að það verði nógu heitt til að nota stuttbuxurnar og skunda út í garð og gróðursetja þær í sumarylnum.

Að láta kartöflurnar forspíra
Til að tryggja góða uppskeru í kartöfluræktun þá eru kartöflurnar látnar spíra í 6 vikur á björtum stað áður en þær eru settar niður í beð. Hyggilegt er að setja kartöflurnar niður þegar hitinn í jarðveginum í kartöflubeðinu hefur náð 7-8°C. Ég hef það eftir sérfræðingi að lítið gerist hjá kartöflunum liggi þær í köldum jarðvegi, eini ávinningurinn væri frekari líkur á sjúkdómum.

Skerpa klippur og snyrta runna
Á þessum árstíma er tímabært að hugleiða hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Beittar klippur gefa hreinan skurð og sár gróða fyrr og svo minnka þær líkur á sveppasýkingu í trjánum. Alltaf ætti þó að þrífa og sótthreinsa klippur vel áður en farið er í snyrtingar. Hentugast er að klippa limgerði A-laga því þá er limgerðið breiðast neðst og mjókkar eftir því sem ofar dregur.