Njótum vetrarins

Stormar, rigning og snjókoma í bland við bjart og fallegt gluggaveður einkennir þorrann. Gott er að gera vel við sig í mat í inniverunni, lesa eða dunda innandyra. Gott að gera plön fyrir sumarið, huga að garðhúsgögnunum hafi maður bílskúr og jafnvel mála innandyra. Spurning hvort það vanti nýjar gardínur í bústaðinn, fleiri púða í sófann eða gera sér ferð í garðyrkjuverslanir og skoða fræframboð.

Laufið í gróðurbeðunum er sem teppi sem hlífir plönturótum og viðkvæmum nýgræðingi sem er að vakna til lífsins. Leyfið því að liggja fram í byrjun júní, það moðnar og maðkarnir taka sinn toll því þeir koma svangir upp á yfirborðið eftir veturinn. Þegar svo kemur að því að hreinsa beðin eru leifarnar af laufinu settar í moltutunnuna eða grafnar niður á milli trjánna þar sem þær verða að næringarríkri mold með tímanum. Stöngla af fjölærum plöntum má brjóta og leggja yfir plönturnar til að hlífa þeim því enn er von á frostnóttum þegar heiðskírt er. 

Nú má fara að huga að hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Náttúran er í vetrardvala og þá er tilvalið að klippa limgerðið og hlúa að því með því að setja greinar yfir viðkvæman gróður eða sveipa striga til að verja sígræna runna sterkri vorsólinni.

Vorlaukarnir eru gleðigjafi
Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, glitfíflum (Dahlia), snotrum (Animone) og liljum (Lilium). Úrval af þeim eru nú til í garðyrkjuverslunum. Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum meðan maður bíður eftir því að það verði nógu hlýtt til að bregða sér í stuttbuxur og skunda út í garð og gróðursetja þær í sumarylnum, en það er ekki komið að því alveg strax.