Gróðursetning að hausti

Haustverkin-í-garðinum800px.jpg
Uppbinding_800px.jpg

Aðal vaxtartími róta fjölærra garðplantna er að hausti. Þá eru trén að flytja forða úr laufunum niður í ræturnar. Ný gróðursett tré og runnar eru fljótari að róta sig og minni hætta á að þau þorni eða kali vegna hreta. Hægt er að gróðursetja tré og runna langt fram á vetur svo fremi sem jörð er ekki frosin. Grafa ætti holu sem er á bilinu 60-200 cm breið eftir stærð trésins og góðar 2-3 skófludýptir niður. Blanda við moldina sandi og vel niðurbrotnum húsdýraáburði eða moltu. Aldrei ætti að láta tré standa dýpra en það stóð í pottinum. Tryggja þarf góðan stuðning við trén og reka niður staura.

Ágústa Erlingsdóttir brautarstýra skrúðgarðyrkju í Garðyrkjuskólanum ráðleggur að tré þurfi að lámarki 2 staura í heimilisgarðinum. Í gatnaframkvæmdum er notast við 3 staura. Nota á grennstu gerð af girðingarstaurum. Hægt er að nota gúmmíborða, sem fæst meðal annars í Garðheimum, og á milli stofns og staurs á að nota gúmmísylgju sem tryggir að tréð vaggi sem minnst. Einnig er hægt að nota grisjur í borðum, enda eru þær úr hampefni sem brotnar niður með tímanum og því minni hætta á að skemma stofninn. Alls ekki nota vír, efnið verður að gefa aðeins eftir. Dekkjaslöngur úr reiðhjólum er í lagi að nota, en þá á að hafa slöngurnar heilar, ekki skera þær endilangar. Þá er slangan sett upp á stofninn og snúið vel upp á til að hún gefi sem minnst eftir. Ekki ætti að nota dekkja slöngu úr bílum, en slíkt er ekki algengt í dag sem betur fer. Þær slöngur eru of breiðar og ef þær eru skornar getur það skaðað tréð. Setja ætti stuðninginn á neðsta þriðjung trésins eða í hálfa hæð þess. Uppbindingarnar eiga allar að vera í sömu hæð svo að tréð geti vaggað eðlilega. Ein uppbinding úr hverjum staur. Ef aðeins er notaður einn borði á milli tveggja staura getur tréð færst til innan borðans og börkurinn særst. Uppbindingin má ekki særa börkinn, enda getur slíkt leitt til sveppasýkingar og jafnvel dauða trésins.