Garðverkin að vetri


Texti: Auður I. Ottesen, Steinar Björgvinsson. Myndir: Páll Jökull Pétursson.

Yfir vetrartímann er kjörið að hugleiða hvað hægt sé að gera í garðinum eða sumarhúsalandinu til að bæta skjól, lýsingu og til að fegra með sígrænum gróðri. Lýsing niður við jörð hjálpar til að rata að híbýlum og eykur öruggið er þegar gangvegir verða ísilagðir. Vetrarstormar sveigja trén og beygja. Nýgróðursett tré er hyggilegt að staga niður og skýla viðkvæmum runnum og fjölærum plöntum.

 Trjáklippingar
Sumir vilja munda klippurnar á haustin en hafa verður í huga að ákveðnum tegundum hættir frekar við sveppasýkingu þegar verið er að saga og klippa greinar. Gullregn, lerki, hlynur og ávaxtatré eru tegundir sem eru viðkvæmar fyrir sveppasýkingum og best er að klippa þær á sumrin. Barrtré, sem eru full af harpixi, er í lagi að klippa á haustin og veturna. Það er allt í góðu að klippa grenilimgerði, rifsrunna, sólberjarunna og hindberjarunna seinni hluta vetrar, eins mispilslimgerði. Fjallarifsið má klippa á veturna.

 


Ekki henda laufblöðum!
Laufblöð er dýrmætt lífrænt efni sem ekki á að henda. Þau brotna fljótt niður og eru góður og frjósamur áburður og jarðvegsbætir. Laufin eru falleg þekja undir trjám, setið þau í blómabeðin eða matjurtagarðinn og þau verða orðin að mold fyrir sumarið. Ef fólk vill fallegar grasflatir ætti að fjarlægja laufblöðin af þeim þar sem þau geta valdið „skallablettum“ ef lagið er of þykkt.

Sígrænar plöntur í skreytingar
Er sígrænar plöntur í garðinum eldast þá er tilvalið að nýta greinar af þeim í skreytingar. Einir, lífviður og tugja þéttast við klippingu og endilega nýtið neðstu greinarnar af greni ef verið er að snyrta trén. Eins er með furuna, oft getur þurft að snyrta hana og þá er grein klippt við greinaröxl.

Jólarós í blóma um hávetur
Jólarósin (Helleborus niger) er víða í Evrópu vinsælt jólablóm, bæði afskorin og sem pottablóm. Plantan er líka eftirsótt garðplanta og finnst hér á landi í nokkrum görðum. Nú er hægt að kaupa stórar og fallegar jólarósin í blómabúðum í mörgum litbrigðum. Hvít sem er með stór og hvít blóm er einna vinsælust ásamt fölgrænu afbrigði

Jólarósir eru smartar í skreytingar í pottum á veröndinni. Blómin á jólarósinni standa óvenju lengi og því svalara sem er þeim mun lengur standa þau. Hún blómstrar í görðum frá desember fram í apríl. Hún er að kíkja upp úr snjónum um hávetur og vekur ætíð aðdáun. Til eru nokkrar þjóðsagnalegar frásagnir um uppruna jólarósarinnar. Ein sagan segir frá örvæntingu fjárhirðis sem var vitni að fæðingu Jesú yfir að hafa gleymt gjöf til að færa Jesúbarninu. Dóttir hans varð svo leið að hún felldi tár. Tárið féll í svörð og jólarósin óx upp þar sem það hafði fallið. Þið ráðið því hvort þið trúið þessu.

 

Haustlaukar
Flestir eru nú búnir að setja niður haustlaukana en ef einhver á enn lauka er í lagi, þegar ekki er frost í jörðu, að setja þá niður. Laukurinn þarf að geta sett út rætur og komið sér fyrir áður en vetur gengur í garð því hann er í startholunum strax á vorin. Ef fólk er enn með lauka í desember, ætti frekar að setja þá niður en geyma þá, því þeir eiga til að skemmast og þorna upp.

Keisarakróna (Fritillaria) er hávaxin tegund sem gefur falleg gul eða appelsínurauð blóm. Laukurinn er ilmsterkur og þykir henta vel til að minnka ásókn músa í húsakynni, sumarbústaði og hjólhýsi. Laukurinn er skorinn í bita og dreift á þá staði sem mýs eru ekki velkomnar.

Perlulilja (Muscari) og kúlulaukur (Allium sphaerocephalon)