Garðverkin í sumarbyrjun
/Texti: Auður I. Ottesen. Myndir: Páll Jökull Pétursson.
Yndislegt gluggaveður og veðurblíða hvetur mann til að drífa sig út í garð. Vorið hefur verið svalt, mars kaldur en aprílhitinn í meðallagi. Óskandi er að sumardagurinn fyrsti beri með sér bjarta og ljúfa daga svo maður geti farið berfættur út í garð.
Nú er tími til að hugleiða hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Náttúran er enn í vetrardvala og ef einhver á eftir að klippa limgerðið þá er bara að drífa sig. Tímabært að snyrta rósirnar og runnana í garðinum. Hlúa að viðkvæmum plöntum með því að setja greinar yfir þær og sveipa striga yfir sígrænan lággróður til að verja hann fyrir sterkri vorsólinni. Viljið þið gefa grannanum af fjölæringunum í garðinum þá er tíminn núna að skipta þeim ef þeir eru orðnir frekir á plássið. Svo má fara að eiga við mosann, stutt í fyrsta slátt og koma kartöflunum niður.
Bleikja rabarbarann
Maður er sólginn í ferskt úr garðinum og það sem sprettur einna fyrst á vorin er hjálmlaukurinn (Allium x proliferum) og einnig graslaukurinn (Allium schoenoprasum) sem er kominn af stað og um að gera að nýta sér hann. Nýsprottnir stönglarnir af brúsku (Hosta) eru notaðir í matseld í Asíu og ég hvet ykkur til að prófa að matreiða þá. Eins að flýta fyrir rabarbaranum (Rheum x cultorum) með því að setja stóran pott yfir einn eða tvo hnausa til að bleikja leggina. Hann vex í myrkrinu og leggirnir verða rauðleitir og sætari á bragðið og því góðir í fyrsta rabararagraut sumarsins.
Þykir þjóðlegasti siður
Nú er tíminn til að spíra kartöflurnar (Solanum tuberosum). Brýnt er að nota viðurkennt útsæði og freistast ekki til að nota kartöflur sem keyptar eru í matvöruverslunum. Bakteríur, sveppir og vírusar geta gert usla í ræktuninni. Nokkrir bændur á Íslandi rækta útsæðiskartöflur undir eftirliti til að tryggja að neytendur eigi aðgang að góðu útsæði án sjúkdóma. Til að flýta fyrir þá eru kartöflur látnar spíra í 4-6 vikur í birtu en ekki í beinni sól. Hefðbundið kartöflubeð er stungið upp, gott er að auka frjósemi jarðvegsins með um fjórum skóflum af hrossaskít eða um einum lítra af hænsnaskít á hvern fermetra. Til að fullnægja áburðarþörfinni, ef kosin er lífræn ræktun, þá er til bóta að koma til móts við snefilefnaþörfina með með 1-2 lítrum af þörungamjöli á hvern fermetra. Kjósi fólk að nota Blákorn þá inniheldur kyrnið öll þau næringarefni sem kartaflan þarfnast. Borið er tvisvar til þrisvar á yfir sumarið um þrjár matskeiðar á hvern fermetra.
Gott er að hafa í huga eftirfarandi:
Of lítið köfnunarefni dregur úr uppskeru.
Of mikið köfnunarefni veldur því að kartöflugrösin verða stór, undirvöxtur lítill og þurrefnið í þeim minnkar.
Kalí eykur uppskeru, of mikið minnkar þurrefni.
Kalísúlfat hentar kartöflum, ekki kalíklórid.
Aukið fosfór eykur þurrefnisinnihald og þar með gæði kartafla.
Kalk er að öllu jöfnu ekki borið á kartöflugarða.
Millibil 25-35 sm milli kartaflanna og 35-50 sm milli raða. Gott er að setja nýslegið gras yfir moldina til að hindra vöxt illgresis. Svo ber að hafa í huga, til að forðast jarðvegsþreytu og sjúkdóma, að rækta kartöflur ekki lengur en fjögur til fimm ár á sama stað.
Sáning krydds, matjurta og sumarblóma
Sáning er gefandi iðja, uppskeran er fyrirheit um blómríkt sumar og gæði á matardiskinn. Nú hugum við að sáningu sumarblóma, matjurta og krydds. Í blómaverslunum fæst úrval af fræi sem er yfirleitt af góðum gæðum. Hægt er að velja fræ sem hefur frjóvgast náttúrulega, svokallað F1 fræ þar sem foreldrarnir eru sérvaldir vegna gæða og útlits. Val á F1 fræi getur skipt máli ef maður vill einsleitar plöntur og er helst notað í matjurta- og sumarblómaræktun. Svo er hægt að velja fræ þaðan sem fræplönturnar hafa verið ræktaðar með lífrænum hætti.
Stjúpur, fjólur, fagurfífill og rósmarin eru tegundir sem þurfa langt vaxtartímabil og er sáð fyrir í febrúar. Fjölda kryddtegunda, s.s. salvíu, majoran, hrukkblaða steinselju, lavender, oregano, garðablóðbergi ,sítrónumelissu, stilkselleríi, púrru og öðrum lauktegundum er sáð í mars fram í byrjun apríl. Sumarblómafræ sem þarf að sá í mars eru brúðarauga, frúarhattur, meyjarblóm, brúðarstjarna, daggarbrá, fiðrildablóm, hádegisblóm, ilmskúfur og skógarmalva. Öðrum krydd-, grænmetis- og sumarblómategundum er sáð um miðjan apríl og svo eru enn aðrar sem sáð er beint út í beð í maí og júní. En hafið hugfast að sáningartíminn er ekki alveg heilagur, heldur er það vaxtartíminn, hitastig, birta og næring sem eru lykilinn að góðri ræktun. Miðað er við að forræktuðu plönturnar séu settar út er jarðvegurinn hefur náð um 8°C og lofthitinn um og yfir 6-8°C.
Sáning
Við sáningu þarf að gæta vel að hreinlæti, þrífa öll ílát vel til að fyrirbyggja sveppasýkingu og alltaf má eiga von á að sniglaegg leynist í notuðum ílátum. Auk potta og bakka er hægt að nota jógúrtdósir, skyrdollur og bakka undan kjötvöru séu þau götuð til að vatn eigi greiðan aðgang frá þeim. Algengast er að nota sáningarmold sem er næringarlítil mold en ef kosið er að sá beint í pott þar sem planta fær að vaxa upp er klókt að vera með næringarríkari mold að hluta og sáðmold í efstu tveimur sentimetrunum. Fræin spíra í sáðmoldina og rótin vex síðan niður í næringarríkari mold. Með þessu sparast að dreifplanta í stærri pott. Sáningarmoldin þarf að vera vel rök þegar sáð er. Í fræbréfum er mismikið af fræi og oft dugar það til nokkra ára. Sáið ofan á sáðmoldina þannig að eilítið bil sé á milli fræjanna. Yfir þau er síðan sáldrað, u.þ.b. tvöföldu lagi af mold eða fínum vikri til að hylja þau. Merkið svo hverja tegund með merkimiða og vökvið varlega yfir. Gott er að setja plast yfir sáninguna eða dagblað til að halda raka að moldinni á meðan fræin eru að spíra. Yfirleitt er fræ um 3-14 daga að spíra og plöntunum, sem er sáð í bakka eða potta, þarf að dreifplanta eftir að kímblöðin, sem eru fyrstu tvö blöðin sem vaxa upp af fræinu, hafa vaxið.
Heppilegt hitastig við sáningu fyrir flestar tegundir er um 20-25°C en við ræktun þarf það að vera lægra, um 12-17°C. Sé hitastigið hátt og lýsing ónóg hættir plöntunum við að spíra og verða renglulegar. Góð birta er nauðsynleg og nú þegar daginn er farið að lengja er dagsljósið nægilegt við glugga. Sé það ekki nóg getur verið þörf á að nota raflýsingu til að fullnægja þörfum plöntunnar fyrir birtu.