Haustverkin í garðinum
/Haustverkin í garðinum
Texti: Auður I Ottesen. Myndir: Páll Jökull Pétursson
Litadýrð haustsins er heillandi. Græni litur laufblaðanna fjarar út og í staðinn birtast allir litirnir í gula og rauða litaskalanum. Er laufin falla þá er gott að raka þau af grasfletinum og setja í beðin til að hylja mold og viðkvæmar plöntur. Sumir grafa laufblöðin niður í holur til að láta þau moðna þar og breytast í jarðveg. Þar verða þau að fyrsta flokks fæði fyrir ánamaðkana og örverur sem launa örlætið með úrgangi sínum sem er svo til gagns fyrir rætur sem næring.
Uppskeran í hús
Haustið er uppskerutími matjurta. Fátt jafnast á við góðan vetraforða og aðgengi að eigin grænmeti. Kartöflurnar fara í rimlakassa og eru geymdar á myrkum og stað þar sem hitinn fer ekki niður fyrir 4°C. Gulrætur og annað rótargrænmeti er gott að geyma í kassa umlukið sandi og geymast við sömu aðstæður og kartöflur. Káltegundir geymist í kæli þar sem rakastig er hátt og eða soðið niður og frysti; gufusýð í 2-4 mínútur og snöggkæli undir kaldri vatnsbunu áður en ég set í krukkur og box og set í frysti. Svo er hægt að mjólkursýra grænmeti og eiga til vetrarins. Stilksellerí þurrfrysti ég og nota svo í morgundrykkinn en uppistaðan í drykknum er salat, banani og lárpera. Í sumar hef ég verið að gera tilraun með að frysta salatið því nóg er af því enn í garðinum. Sú aðferð sem reynist mér best er að setja salatið með vatni í blandarann, tæta það í spað og frysta síðan löginn í krukku. Síðan þegar ég ætla að nota það þá læt ég það þiðna þangað til frosinn klumpurinn losnar úr krukkunni og er hann þá settur í blandarann sem uppistaðan í morgundrykknum. Krydd ýmist þurrka ég eða frysti í vatnsteningum.
Haustlaukar – nú er tíminn
Úrval haustlauka í garðyrkjuverslunum hefur sjaldan verið meira. Látið þá eftir ykkur því ódýrari blóm fást varla. Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geti verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. Sveppagró, sem eru smitberar fjölmargra sveppasjúkdóma í gróðri, berast með vindinum á haustin. Hyggilegt er að klippa eða snyrta ekki trjágróður og runna sem útsett eru fyrir sveppasmiti. Sveppir eiga greiða leið í opin sár sem gróa ekki fyrr en nýtt vaxtartímabil hefst næsta vor. Heppilegast er að klippa trjágróður seinni hluta vetrar og snemma á vorin, frá febrúar og fram í byrjun maí.
Góður tími til að gróðursetja
Gróðursetning og flutningur á trjám, runnum og jurtkenndum fjölærum plöntum er heppilegur á meðan plantan er ekki í vexti. Þegar plantan er í vexti er hún viðkvæm fyrir flutningum. Ólafur Njálsson garðyrkjusérfræðingur segir 110% ávinning af því að gróðursetja plöntur á haustin og veturna. Ástæðan er sú að seinni part sumars og á haustin vaxa rætur plantna einna mest. Ofanvöxtur er hættur, öll næring sem framleidd er í blöðunum fer niður í rætur. Ástæðan er svo ekki síður sú að á vorin er gróður tilbúinn að vaxa strax og hlýnar í mars, apríl og maí sem er það forskot sem skilar sér í betri sumarvexti plöntunnar. Notið endilega góðviðrisdagana í haust og vetur þegar jörð er þíð til að gróðursetja. Ekki þarf að vökva eftir gróðursetningu á þessum árstíma, rigningin sér um vökvunina. Haustið er líka góður tími til að flytja plöntur og taka fjölæringa upp sem hafa vaxið vel, skipta þeim og planta aftur. Það sem af gengur er alltaf þakkarverð gjöf til vina og vandamanna.
Tilvalið að safna fræi
Fátt er skemmtilegra en að rækta sitt eigið og því tilvalið að verða sér úti um fræ af runnum, trjám eða fjölærum jurtum, jafnvel sumarblómum í haust og vetrarbyrjun. Nær öll ber með aldinkjöti þurfa kaldörvun og því er sáð í bakka fyrir veturinn og sáningarbakkinn geymdur úti við. Tryggja þarf að mýs eða fuglar nái ekki í berin og er klókt að setja glerplöntu ofan á sáningabakkann til að tryggja rán. Inni í könglum sígrænna tegunda eru fræ og í reklum birkis og elritrjáa. Fræ af þessum tegundum þurrkar maður við stofuhita í nokkra daga og geymir það svo á þurrum en svölum stað til vorsins og sáir þá.
Bæta við uppáhalds fjölæringum
Fjölærar jurtkenndar plöntur njóta æ meiri vinsælda í görðum. Margir eru með sínar uppáhalds þegar í garðinum eða sumarhúsalandinu og hafa í sumar borðið augum nýjar heillandi tegundir sem gætu passað svo vel við það sem fyrir er í garðinum eða í ný beð eða blómaengi í sumarhúsalandinu. Haustið er góður tími til að skipta fjölæringum í garðinum og eftir það er kjörið að nota plönturnar sem verða til sem skiptimynt og bítta við aðra garðeigendur sem eiga þær tegundir sem færu vel í þínum garði. Svo er úrval fjölæringa enn til sölu í gróðrarstöðvunum og klókt er að koma við og skoða úrvalið og festa kaup á einni og einni. Ávinningurinn við haustgróðursetningu er að plönturnar ná að festa rætur og koma sér fyrir í jarðveginum og vaxa síðan kröftugar upp næsta sumar.
Illgresi
Síðsumar er snjallt að fara eina umferð í garðinum og stinga upp og reita illgresi þar sem við viljum ekki að það vaxi. Krossfífill, arfi, lambaklukka, fíflar, skriðsóley og njóli eru algengar tegundir sem eru ágengar og að auki elfting sem erfitt getur reynst að uppræta. Handreiting er heppileg í blómabeðum eftir að arfasköfunni hefur verið beitt undir ræturnar. Krossfífil, arfa og dúnurt er auðvelt að ná upp og þá er gott að draga rótina varlega upp til að ná henni allri. Njóli og fífill eru með stólparót þannig að stunguskófla eða fíflaspaði reynist vel til að losa ræturnar og stinga upp. Skriðsóley er með skriðular rætur sem vaxa frá móðurplöntunni. Stingið upp móðurplöntuna og dragið ræturnar upp sem gott getur reynst að stinga undir til að losa þær í jarðveginum. Ef illgresið er mikið í stórum beðum getur reynst árangursríkt að breiða dagblöð á milli trjáa, runna og fjölæringanna eða undir limgerðin sem fyrir eru með því að krossleggja þau yfir beðið og fergja þau síðan með mold eða sandi. Dagblöðin eru 1-2 ár að brotna niður og á meðan nær illgresið ekki að vaxa né í birtu.