Haustið er komið

Gjáin í Þjórsárdal

Gjáin í Þjórsárdal.

Haustlitirnir njóta sín í þverrandi birtu og ökuferð í skóglendi, ganga um berjavaxnar fjallshlíðar og garðinn er sannarlega augnakonfekt. Ég verð með námseið í vistrækt og hraukbeðagerð í mánuðinum og við Petra Stefánsdóttir blómaskreytir höfum verið að safna að okkur efnivið í okkar árlega haustkransanámskeið. Námskeiðið sló í gegn í fyrra og skráning á námskeiðin fer vel að stað í ár. Við verðum með Opið hús – haustfagnað, 22. október í Fossheiði 1 á Selfossi. Takið daginn frá og hjartanlega velkomin.

 

Laufið og sölnuðu stönglarnir

Ekki amast yfir laufinu, laufið er teppið sem þekur jarðveg og veitir honum skjól. Þykk lög af því eru ekki heppileg á grasfletinum og því skynsamlegt að raka þau og setja út í blómabeðin eða geyma til íblöndunar við lífrænar eldhúsleifar fyrir veturinn. Laufið verður orðið að mold að vori og aðgengileg fæða fyrir ánamaðka er þeir skríða upp eftir vetrardvala. Eins ættuð þið ekki hreinsa burt visna stöngla af fjölærum plöntum. Leyfum þeim að vera þær hlífa rótinni yfir veturinn.

 

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Nú er tími haustlaukanna

Haustlaukranir mynda rætur fyrir frost og eru tilbúnir að vaxa strax er hlýnar á vorin. Við hvetjum garð- og sumarhúsalóðaeigendur að kíkja á úrvalið sem er afar fjölbreytt í ár. Klókt er að velja laukategundir sem blómgast á mismunandi tímum og setja niður í þyrpingar í beðin, crókusa í grasflötina, túlípana og páskaliljur í beðin og keisarakrónuna þar sem vænta má músagangs því litlu nagdýrunum hugnast ekki lyktin af lauknum. Þumalputtareglan í gróðursetningunni er að laukarnir far þrisvar stærð lauksins niður og bilið á milli laukanna er áþekkt. Laukar gera mikið fyrir garðinn, þeir eru ódýrir og hægt er að velja milli fjölda tegunda, hæðar, blómlita og lögunar.

 

Doka við með snyrtingu trjáa

Ekki klippa trjágróður á haustin sem móttækilegur er fyrir átusmiti. Áta er sveppasjúkdómur sem herjar á lerki, reyni, gullregn og víði. Gróin eru í mesta mæli á sveimi á haustin og eiga greiðan aðgang að sárinu sem myndast þegar greinar eru sneiddar af trjánum. Bíðið fram í febrúar með snyrtingar á þessum tegundum.

 Safnið fræjum af fjölæringum

Er vorar er spennandi að eiga fræ til að láta spíra meðan vorsins er beðið. Notarlegt er að sjá nýgræðinginn teygja sig upp úr moldinni meðan enn er kalsi í veðri og gróandinn enn í dvala utandyra. Safnið endilega fræjum, þau sem ekki þurfa kaldörvun eru þurrkað og geymd á svölum stað fram í mars – apríl og þá er þeim sáð.

Afmælisár - Sumarhúsið og garðurinn 30 ára

Á árinu 2022 fagna þau Auður I. Ottesen ritstjóri Sumarhússins og garðsins og Páll Jökull Pétursson þrítugasta útgáfuári blaðsins. Þau hjón hafa alls gefið út 113 tölublöð, fyrstu sjö árin var tímaritinu dreift frítt til sumarhúsaeigenda undir nafninu Sumarhúsið. Árið 2000 var blaðið boðið í áskrift. Nafnabreyting var 2002 þegar garðyrkjuritið Við ræktum, garðyrkjuriti sem þau Auður og Páll Jökull gáfu út í 3 ár var sameinað Sumarhúsinu og bættist þá garðurinn við nafnið.

Afmælisár hjá Sumarhúsinu og garðinum

Sumarhúsið og garðurinn fagnar 30. útgáfuárinu 2022.

Sumarhúsið og garðurinn stóð að vinsælum vörusýningum í Laugardalshöll og Fífunni á árunum 2002-2008 og hefur gefið út níu bækur í bókaflokknum Við ræktum og bækurnar Draumagarðinn og 12 Glæsilegir garðar. Umfjöllunarefni bókanna er garðmenning, hönnun, gróður og ræktun.

Frá 2011 flutti útgáfan á Selfoss, þar sem boðið er upp á námskeið og markaðsdaga og opin hús fyrir áskrifendur og lesendur. Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins – Stefnumót við Múlatorg er haldin í júli ár hvert, þar er boðið upp á tónlistaupplifun, fræðslu og fjölbreyttan markað. Í ár verður sumarhátíðinn tileinkuð tímamótum blaðsins og haldið verður veglega upp á þrítugasta útgáfuárið. Sumarhátíðin okkar, Stefnumót við Múlatorg verður haldið í ár laugardaginn 16. júlí að Fossheiði 1 á Selfossi.

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn er lífsstílstímarit, umfjöllunarefnið; sumarhúsalíf, garðahönnun, garðyrkja, smíðar og handverk og ferðalög um íslenska náttúru. Á árinu 2022 verða gefin út 4 tölublöð – hvert þeirra 100 síður af glæsilegu efni.

Haustverkin í garðinum

Haustverkin í garðinum

Texti: Auður I Ottesen. Myndir: Páll Jökull Pétursson

Litadýrð haustsins er heillandi. Græni litur laufblaðanna fjarar út og í staðinn birtast allir litirnir í gula og rauða litaskalanum. Er laufin falla þá er gott að raka þau af grasfletinum og setja í beðin til að hylja mold og viðkvæmar plöntur. Sumir grafa laufblöðin niður í holur til að láta þau moðna þar og breytast í jarðveg. Þar verða þau að fyrsta flokks fæði fyrir ánamaðkana og örverur sem launa örlætið með úrgangi sínum sem er svo til gagns fyrir rætur sem næring.

Grænmetisuppskera_150911_MG_1126.jpg

Uppskeran í hús

Haustið er uppskerutími matjurta. Fátt jafnast á við góðan vetraforða og aðgengi að eigin grænmeti. Kartöflurnar fara í rimlakassa og eru geymdar á myrkum og stað þar sem hitinn fer ekki niður fyrir 4°C. Gulrætur og annað rótargrænmeti er gott að geyma í kassa umlukið sandi og geymast við sömu aðstæður og kartöflur. Káltegundir geymist í kæli þar sem rakastig er hátt og eða soðið niður og frysti; gufusýð í 2-4 mínútur og snöggkæli undir kaldri vatnsbunu áður en ég set í krukkur og box og set í frysti. Svo er hægt að mjólkursýra grænmeti og eiga til vetrarins. Stilksellerí þurrfrysti ég og nota svo í morgundrykkinn en uppistaðan í drykknum er salat, banani og lárpera. Í sumar hef ég verið að gera tilraun með að frysta salatið því nóg er af því enn í garðinum. Sú aðferð sem reynist mér best er að setja salatið með vatni í blandarann, tæta það í spað og frysta síðan löginn í krukku. Síðan þegar ég ætla að nota það þá læt ég það þiðna þangað til frosinn klumpurinn losnar úr krukkunni og er hann þá settur í blandarann sem uppistaðan í morgundrykknum. Krydd ýmist þurrka ég eða frysti í vatnsteningum.

 

Haustlaukar – nú er tíminn
Úrval haustlauka í garðyrkjuverslunum hefur sjaldan verið meira. Látið þá eftir ykkur því ódýrari blóm fást varla. Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geti verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. Sveppagró, sem eru smitberar fjölmargra sveppasjúkdóma í gróðri, berast með vindinum á haustin. Hyggilegt er að klippa eða snyrta ekki trjágróður og runna sem útsett eru fyrir sveppasmiti. Sveppir eiga greiða leið í opin sár sem gróa ekki fyrr en nýtt vaxtartímabil hefst næsta vor. Heppilegast er að klippa trjágróður seinni hluta vetrar og snemma á vorin, frá febrúar og fram í byrjun maí.

Góður tími til að gróðursetja
Gróðursetning og flutningur á trjám, runnum og jurtkenndum fjölærum plöntum er heppilegur á meðan plantan er ekki í vexti. Þegar plantan er í vexti er hún viðkvæm fyrir flutningum. Ólafur Njálsson garðyrkjusérfræðingur segir 110% ávinning af því að gróðursetja plöntur á haustin og veturna. Ástæðan er sú að seinni part sumars og á haustin vaxa rætur plantna einna mest. Ofanvöxtur er hættur, öll næring sem framleidd er í blöðunum fer niður í rætur. Ástæðan er svo ekki síður sú að á vorin er gróður tilbúinn að vaxa strax og hlýnar í mars, apríl og maí sem er það forskot sem skilar sér í betri sumarvexti plöntunnar. Notið endilega góðviðrisdagana í haust og vetur þegar jörð er þíð til að gróðursetja. Ekki þarf að vökva eftir gróðursetningu á þessum árstíma, rigningin sér um vökvunina. Haustið er líka góður tími til að flytja plöntur og taka fjölæringa upp sem hafa vaxið vel, skipta þeim og planta aftur. Það sem af gengur er alltaf þakkarverð gjöf til vina og vandamanna.

Auður_sáning_MG_5466.jpg

Tilvalið að safna fræi
Fátt er skemmtilegra en að rækta sitt eigið og því tilvalið að verða sér úti um fræ af runnum, trjám eða fjölærum jurtum, jafnvel sumarblómum í haust og vetrarbyrjun. Nær öll ber með aldinkjöti þurfa kaldörvun og því er sáð í bakka fyrir veturinn og sáningarbakkinn geymdur úti við. Tryggja þarf að mýs eða fuglar nái ekki í berin og er klókt að setja glerplöntu ofan á sáningabakkann til að tryggja rán. Inni í könglum sígrænna tegunda eru fræ og í reklum birkis og elritrjáa. Fræ af þessum tegundum þurrkar maður við stofuhita í nokkra daga og geymir það svo á þurrum en svölum stað til vorsins og sáir þá.

Bæta við uppáhalds fjölæringum

Fjölærar jurtkenndar plöntur njóta æ meiri vinsælda í görðum. Margir eru með sínar uppáhalds þegar í garðinum eða sumarhúsalandinu og hafa í sumar borðið augum nýjar heillandi tegundir sem gætu passað svo vel við það sem fyrir er í garðinum eða í ný beð eða blómaengi í sumarhúsalandinu. Haustið er góður tími til að skipta fjölæringum í garðinum og eftir það er kjörið að nota plönturnar sem verða til sem skiptimynt og bítta við aðra garðeigendur sem eiga þær tegundir sem færu vel í þínum garði. Svo er úrval fjölæringa enn til sölu í gróðrarstöðvunum og klókt er að koma við og skoða úrvalið og festa kaup á einni og einni. Ávinningurinn við haustgróðursetningu er að plönturnar ná að festa rætur og koma sér fyrir í jarðveginum og vaxa síðan kröftugar upp næsta sumar.

 

Arfi_IMG_1153.jpg

Illgresi

Síðsumar er snjallt að fara eina umferð í garðinum og stinga upp og reita illgresi þar sem við viljum ekki að það vaxi. Krossfífill, arfi, lambaklukka, fíflar, skriðsóley og njóli eru algengar tegundir sem eru ágengar og að auki elfting sem erfitt getur reynst að uppræta. Handreiting er heppileg í blómabeðum eftir að arfasköfunni hefur verið beitt undir ræturnar. Krossfífil, arfa og dúnurt er auðvelt að ná upp og þá er gott að draga rótina varlega upp til að ná henni allri. Njóli og fífill eru með stólparót þannig að stunguskófla eða fíflaspaði reynist vel til að losa ræturnar og stinga upp. Skriðsóley er með skriðular rætur sem vaxa frá móðurplöntunni. Stingið upp móðurplöntuna og dragið ræturnar upp sem gott getur reynst að stinga undir til að losa þær í jarðveginum. Ef illgresið er mikið í stórum beðum getur reynst árangursríkt að breiða dagblöð á milli trjáa, runna og fjölæringanna eða undir limgerðin sem fyrir eru með því að krossleggja þau yfir beðið og fergja þau síðan með mold eða sandi. Dagblöðin eru 1-2 ár að brotna niður og á meðan nær illgresið ekki að vaxa né í birtu. 

Dagatal 2021

Loftmyndir af Íslandi prýða dagatalið fyrir 2021 að þessu sinni. Ljósmyndarinn Páll Jökull Pétursson hefur ferðast víða um land á undanförnum árum sem leiðsögumaður og ljósmyndari og hefur fangað fegurð landsins sem þið fáið hér að njóta í heilt ár.

Hægt er að panta dagatalið hér og fá það sent heim.

2021 Calendar.png

Takið vel á móti nýju ári!

Við sendum heim.

Lauftré á Íslandi komin úr prentun

Lauftré á Íslandi er nú komin aftur, önnur prentun.

Lauftré á Íslandi er nú komin aftur, önnur prentun.

Bókin Lauftré á Íslandi sem er númer 2 í bókaflokknum Við ræktum er nú loks fáanleg á ný. Bókin hefur verið uppseld í nokkur ár, en hún var prentuð fyrst árið 2004 en er nú komin út í annarri prentun. Við höfum bætt við fjölda tegunda og nýjum myndum auk þess að hafa uppfært og bætt við upplýsingum við eldri tegundir.

Hægt er að forpanta bókina á vefnum okkar og fá hana senda heim í pósti. Verðið er aðeins kr. 5.500.- með heimsendingu.

Auðvelt að fjölga graslauk

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.11.55.png

Graslaukur er fjölær lauktegund sem auðvelt er að fjölga með skiptingu að vori eða hausti. Stingið plöntuna upp eða hluta hennar, toga rótina í sundur og fáið  þannig fjölda nýrra plantna. Í matseld eru bæði blöð og blóm notuð, laukbragðið er daufara af blómunum en blöðunum og eru þau falleg í salat og ýmsa rétti.

Sígræn og til skrauts allt árið

Í Fossheiðargarðinum þekja hnoðrar, steinbrjótar og húslaukur gróðurbeðin og tegundirnar eru í kerjum og pottum. Litbrigði tegunda innan ættkvíslanna eru einstök. Blaðlitir ná yfir allan grænskalann, rauða tóna og gula. Mismunandi blaðgerð og fegurð blómanna á einnig stóran þátt í því að menn hafa nýtt sér þessar ættkvíslir á listrænan hátt.

Nýtt útlit - glæsilegt blað

SG_4tbl_2017.jpg

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn tók nokkrum stakkaskiptum við útkomu haustblaðsins okkar, 4. tbl. 2017, þar sem nýr útlitshönnuður hefur tekið við útlitshönnun blaðsins. Það er Sóley Stefánsdóttir grafískur hönnuður sem hefur tekið við því starfi sem Páll Jökull hefur sinnt síðustu 20 árin við umbrot tímaritsins. Við sjáum nú þegar nokkrar breytingar og aðrar áherslur sem fylgja nýjum starfskrafti, en Sóley hefur í fjölda ára haft mikinn áhuga á umhverfismálum. 

Ein af breytingunum sem hafa nú þegar orðið er að við skiptum um pappír, erum nú með aðeins þykkari, mattan pappír sem þykir hafa umhverfisvænna yfirbragð.

Við hlökkum til að fá að vinna með Sóleyju við að gera blaðið okkar ennþá betra og fallegra.

Gróðursetning góð á haustin

Haustið er góður tími til að gróðursetja tré og runna. Ólafur Njálsson garðyrkjusérfræðingur segir 110% ávinning af því að gróðursetja plöntur er fer að hausta. Ástæðan er sú að seinni part sumars og á haustin vaxa rætur plantna einna mest. Ofanvöxtur er hættur, öll næring sem framleidd er í blöðunum fer niður í rætur. Ástæðan er svo ekki síður sú að á vorin er gróður tilbúinn að vaxa strax og hlýnar í mars, apríl og maí sem er það forskot sem skilar sér í betri sumarvexti plöntunnar.

Get ég notað laufin eitthvað?

Laufið er fjársjóður.

Laufið er fjársjóður.

Laufið er notadrjúgt
Er laufin fara að falla þá er gott að raka þau af grasfletinum og setja í beðin til að hylja mold og skýla viðkvæmum plöntum. Eins að setja laufblöðin í moltugerðarkassann eða grafa niður í beðin til að láta þau moðna þar og breytast í jarðveg. Þar verða þau að fyrsta flokks fæði fyrir ánamaðkana og örverur sem launa örlætið með úrgangi sínum sem er svo til gagns fyrir rætur sem næring.

Skjól gert með striga.

Skjól gert með striga.

Hlúa að því viðkvæma
Farsælt er að skýla viðkvæmum plöntum, því sem er nýgróðursett og ungum sígrænum plöntum. Tré sem eru nýgróðursett þurfa stuðning og gott er að festa þau á þrjá vegu við stoðir svo að ræturnar, sem eru að festa sig á nýjum stað, rifni ekki lausar.

Könglar broddfuru.

Könglar broddfuru.

Fræ úr reklum og könglum
Inni í könglum sígrænna tegunda eru fræ og í reklum birkis og elritrjáa. Fræ af þessum tegundum þurrkar maður við stofuhita í nokkra daga og geymir svo í ísskáp til vorsins og sáir þá.

Fyrirheit um fagurt vor

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Haustið er dásamlegur tími, náttúran breytir um lit úr grænu í fagurgula tóna, roðarauða og koparlita. Svo fer laufið að falla sem sæng yfir lággróðurinn og við potum niður haustlaukunum, túlípönum, páskaliljum og krókusum. „Haustlaukarnir eru fyrirheit um fagurt vor,“ sagði Hafsteinn Hafliða, er hann vann í Blómaval sem þá var við Sigtún, og er það hárrétt.

Haustlaukar – nú er tíminn
Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geta verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. 

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Hvítlaukur auðræktanlegur á Íslandi
Ég hvet þá sem ekki hafa prófað að rækta hvítlauk til að prófa. Fáanleg eru í garðyrkjuverslunum harðgerð hvítlauksyrki sem henta vel til ræktunar hér á landi. Sjálf er ég að prófa 8 ný yrki en ég hef ræktað hvítlauk í nokkur ár með góðum árangri. Hvítlaukurinn er settur niður á haustin eins og túlípanalaukarnir, því hvítlaukurinn þarf kaldörvun til að mynda rif. Veljið skjólgóðan og sólríkan stað með djúpunninni, loftríkri og frjórri mold. Útsæðislaukurinn er tekinn í sundur og stærstu rifin notuð til framhaldsræktunar. Hvítlaukurinn þarf að fara 8-10 cm niður og milli þeirra og raða er heppilegt að vera með 10 cm.

Sveppagró á flögri á haustin

Ryð í alaskaösp.

Ryð í alaskaösp.

Sveppagró, sem eru smitberar fjölmargra sveppasjúkdóma í gróðri, berast með loftinu síðsumars og á haustin. Því er óheppilegt að klippa trjágróður og runna því sveppir eiga greiða leið í opin sár sem gróa ekki að fullu fyrr en nýtt vaxtartímabil hefst næsta vor. Heppilegast er að klippa trjágróður seinni hluta vetrar og snemma á vorin, frá febrúar og fram í byrjun maí.

Nammi gott með salati og eggjasnafs

Er ég var barn útbjó móðir mín heimsins besta sumarrétt sem við systkinin höfðum mikið dálæti á. Eggjasnafssúrmjólk með salati og ávöxtum. Þeir sem hafa ræktað salat í sumar ættu að prófa og nóg er úrvalið af salati í verslunum þessa dagana. Það sem mamma notaði í réttinn var höfuð af blaðsalati, 2 egg sem voru hrærð með 2 matskeiðum af sykri þar til blandan var freyðandi og 7 dl. af súrmjólk. Auk þessa allskyns ávextir sem til eru hverju sinni. Brytjað salat er sett í fallega víða skál, súrmjólkur eggjasnafsi er helt yfir og ofaná eru sett bláber, epli, vínber eða þeir ávextir sem þér þykir bestir.

Uppskeran í hús

Auður með uppskeruna úr grenndargarðinum á eldhúsborðinu.

Við sem ræktum grænmeti, krydd og skrúðmeti erum lukkunnar pamfílar. Haustið er sá tími sem húsið fyllist af grænmeti. Kartöflurnar fara í rimlakassa og eru geymdar í bílskúrnum þar sem hitinn fer ekki niður fyrir 4°C. Gulrætur og annað rótargrænmeti er sett í kassa umlukið sandi og geymast á svölum stað. Káltegundir er gott að súrsa eða sjóða niður. Kálið gufusýð ég í 2-4 mínútur og snöggkæli undir kaldri vatnsbunu áður en ég set í frysti. Stilksellerí þurrfrysti ég. Krydd ýmist þurrka ég eða frysti í vatnsteningum. Fátt jafnast á við góðan vetraforða og aðgengi að eigin grænmeti.

Ekki bíða með að uppskera

Þau ykkar sem eru að rækta krydd og matjurtir hvet ég til að uppskera jöfnum höndum þegar jurtirnar eru sprottnar og ekki bíða þar til þær vaxa úr sér eða tréna. Taka utan með salatinu, klípa blöð af kryddinu og freistast til að fara undir kartöflugrösin og sækja í soðið eina og eina kartöflu. Fátt er betra en nýupptekið grænmeti og ferskt krydd.