Afmælisár - Sumarhúsið og garðurinn 30 ára
/Á árinu 2022 fagna þau Auður I. Ottesen ritstjóri Sumarhússins og garðsins og Páll Jökull Pétursson þrítugasta útgáfuári blaðsins. Þau hjón hafa alls gefið út 113 tölublöð, fyrstu sjö árin var tímaritinu dreift frítt til sumarhúsaeigenda undir nafninu Sumarhúsið. Árið 2000 var blaðið boðið í áskrift. Nafnabreyting var 2002 þegar garðyrkjuritið Við ræktum, garðyrkjuriti sem þau Auður og Páll Jökull gáfu út í 3 ár var sameinað Sumarhúsinu og bættist þá garðurinn við nafnið.
Sumarhúsið og garðurinn stóð að vinsælum vörusýningum í Laugardalshöll og Fífunni á árunum 2002-2008 og hefur gefið út níu bækur í bókaflokknum Við ræktum og bækurnar Draumagarðinn og 12 Glæsilegir garðar. Umfjöllunarefni bókanna er garðmenning, hönnun, gróður og ræktun.
Frá 2011 flutti útgáfan á Selfoss, þar sem boðið er upp á námskeið og markaðsdaga og opin hús fyrir áskrifendur og lesendur. Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins – Stefnumót við Múlatorg er haldin í júli ár hvert, þar er boðið upp á tónlistaupplifun, fræðslu og fjölbreyttan markað. Í ár verður sumarhátíðinn tileinkuð tímamótum blaðsins og haldið verður veglega upp á þrítugasta útgáfuárið. Sumarhátíðin okkar, Stefnumót við Múlatorg verður haldið í ár laugardaginn 16. júlí að Fossheiði 1 á Selfossi.
Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn er lífsstílstímarit, umfjöllunarefnið; sumarhúsalíf, garðahönnun, garðyrkja, smíðar og handverk og ferðalög um íslenska náttúru. Á árinu 2022 verða gefin út 4 tölublöð – hvert þeirra 100 síður af glæsilegu efni.