Stefnumót við Múlatorg 16. júlí 2022

Nú fögnum við. Tilefnið er ærið. Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn hefur verið gefið út í 30 ár. Sumarhátíð okkar Stefnumót við Múlatorg er tileinkuð tímamótunum. Við höfum boðið áskrifendum okkar, viðskiptavinum og þjóðinni allri í garðinn að Fossheiði 1 á Selfossi síðustu átta ár. Þar höfum við ætíð verið með einstaklega áhugaverð skemmtiatriði, fræðslu, sýningar og markaðstorg. Í ár er viðhafnarbragur á hátíðinni.

 

Sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar er Elmar Gilbertsson, tenórsöngvari. Elmar er með eina fegurstu rödd landsins og mun syngja fyrir gesti í Fossheiðargarðinum. Raftónlistardúettinn Huldumaður og víbrasjón sem þau Hekla Magnúsdóttir og Sindri Freyr Steinsson skipa, spilar áhugaverða tónlist á þeramín og gítar. Auk þessa verður Páll Jökull Pétursson ljósmyndari með glænýjar myndir úr náttúru Íslands. Í boði verður sýning á exótískum dýrum. Froskasmalinn, Amanda MacQuin, leyfir gestum að skyggnast inn í allsérstakt áhugamál sitt. Goðlingar, afkvæmi Norrænna guða, bjóða seið og lækningajurtir undan rótum Yggdrasils og Páll Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði ræðir við gesti um samspil fólks og umhverfis. Fræðsla, kynningar og sýningar á allskyns plöntum setja svip sinn á hátíðina og ásamt svo mörgu öðru.

 

Á markaðstorgið höfum við þegar bókað 25 aðila sem bjóða til sölu vandað handverk, listmuni, vörur fyrir sumarhúsið og garðinn og ótal margt annað. Nokkur fyrirtæki verða með uppstillingar og dreifingu upplýsinga á markaðinum.

 

Í ár er hátíðin einstök, fræðslan mögnuð og tónlistaratriðin afar metnaðarfull. Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins er einstök upplifun og það er frítt á hátíðina.

 

Með kærri kveðju

Auður I. Ottesen, Páll Jökull Pétursson

Garðverkin í mars og apríl

Texti: Auður I. Ottesen. Myndir: Páll Jökull

Við búum í harðbýlu landi og höfum undanfarið fengið að finna fyrir þrautum þorrans og góunnar með stormi og snjókomu. Veðurviðvaranir með gulum og appelsínurauðum lit á veðurkortinu hafa verið nokkuð algengar og drjúgur tími hefur farið í að moka snjó og skafa hrímið af bílrúðunum. Í öllum látunum er náttúran í vetrardvala. Til að garðaflóran beri ekki skaða þá getum við hlúð að því viðkvæmasta, með því að setja greinar yfir smáplöntur og sveipað striga, til að verja sígræna runna fyrir sterkri vorsólinni.

Mars og apríl er forræktunartími sumarblóma, krydd- og matjurta. Hér er listi yfir nokkrar þeirra tegundir matjurta og sumarblóma sem sáð er til í mars og apríl. Sáð er við stofuhita en ræktunarhitastig smáplantnanna er 12-17°C hiti. Ef hitastigið í ræktuninni er of hátt hættir plöntunum til að spíra, sem þær gera einnig ef birtan er ekki næg.

Sáning í mars:

Fagurfífill (Bellis perennis)
Brúðarauga (Lobelia erinus)
Frúarhattur (Rudbeckia hirta)
Meyjablómi (Godetia grandiflora)
Brúðarstjarna (Cosmos bipinnatus)
Daggarbrá (Leucanthemum paludosum)
Hádegisblóm (Dorotheanthus bellidiformis)
Skógarmalva (Malva sylvestris)
Sólblóm (Helianthus annuus)
Skjaldflétta (Tropaeolum majus)
Rósmarín (Rosmarinus officinalis)
Salvía (Salvia officinalis)
Blaðlaukur (Allium ampeloprasum var. porrum)
Majoram (Origanum majorana)
Lavender (Lavandula angustifolia)
Garðablóðberg (Thymus vulgaris)
Bergmynta (Origanum vulgare)
Sítrónumelissa (Melissa officinalis)
Stilksellerí (Apium graveolens)
Vorlaukar (Allium fistulosum)
Tómatar (Solanum lycopersicum)
Chili-pipar (Capsicum)

Sáning í apríl:
Káltegundir (Brassica oleracea)
Gúrkur (Cucumis sativus)
Salattegundir (Lactuca sativa)
Basilika (Ocimum basilicum)
Aftanroðablóm (Lavatera trimestris)
Fiðrildablóm (Nemesia strumosa)
Ilmskúfur (Matthiola incana var. annua)
Skrautnál (Alyssum maritimum)
Steinselja, hrokkin og slétt (Petroselinum crispum)

 

Hugum að smáfuglunum í frostinu
Á veturna bítur frostið og vindur gnauðar. Smáfuglarnir eiga þá oft erfiða daga og skortir vatn og mat. Fita gefur þeim orku í kuldanum og er því gustuk að gefa þeim brauðmola vætta úr olíu eða fituafskurð af kjöti. Þröstur og starri gæða sér á eplum og rúsínum og auðnutittlingurinn kýs.

Rabarbarinn bleiktur
Víða tíðkast erlendis á vorin að setja stóran pott yfir rabarbarann þegar hann er um það bil að hefja vöxt. Í myrkrinu verða leggirnir rauðleitir og sætari á bragðið og það er ljúft að laga sér rabarbarasúpu um miðjan maí.

Vorlaukar ódýrir gleðigjafar EÐA Ódýrir vorlaukar, góðir gleðigjafar
Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, dalíum, anímónum og liljum. Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum á meðan maður bíður eftir því að það verði nógu heitt til að nota stuttbuxurnar og skunda út í garð og gróðursetja þær í sumarylnum.

Að láta kartöflurnar forspíra
Til að tryggja góða uppskeru í kartöfluræktun þá eru kartöflurnar látnar spíra í 6 vikur á björtum stað áður en þær eru settar niður í beð. Hyggilegt er að setja kartöflurnar niður þegar hitinn í jarðveginum í kartöflubeðinu hefur náð 7-8°C. Ég hef það eftir sérfræðingi að lítið gerist hjá kartöflunum liggi þær í köldum jarðvegi, eini ávinningurinn væri frekari líkur á sjúkdómum.

Skerpa klippur og snyrta runna
Á þessum árstíma er tímabært að hugleiða hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Beittar klippur gefa hreinan skurð og sár gróða fyrr og svo minnka þær líkur á sveppasýkingu í trjánum. Alltaf ætti þó að þrífa og sótthreinsa klippur vel áður en farið er í snyrtingar. Hentugast er að klippa limgerði A-laga því þá er limgerðið breiðast neðst og mjókkar eftir því sem ofar dregur.

Afmælisár - Sumarhúsið og garðurinn 30 ára

Á árinu 2022 fagna þau Auður I. Ottesen ritstjóri Sumarhússins og garðsins og Páll Jökull Pétursson þrítugasta útgáfuári blaðsins. Þau hjón hafa alls gefið út 113 tölublöð, fyrstu sjö árin var tímaritinu dreift frítt til sumarhúsaeigenda undir nafninu Sumarhúsið. Árið 2000 var blaðið boðið í áskrift. Nafnabreyting var 2002 þegar garðyrkjuritið Við ræktum, garðyrkjuriti sem þau Auður og Páll Jökull gáfu út í 3 ár var sameinað Sumarhúsinu og bættist þá garðurinn við nafnið.

Afmælisár hjá Sumarhúsinu og garðinum

Sumarhúsið og garðurinn fagnar 30. útgáfuárinu 2022.

Sumarhúsið og garðurinn stóð að vinsælum vörusýningum í Laugardalshöll og Fífunni á árunum 2002-2008 og hefur gefið út níu bækur í bókaflokknum Við ræktum og bækurnar Draumagarðinn og 12 Glæsilegir garðar. Umfjöllunarefni bókanna er garðmenning, hönnun, gróður og ræktun.

Frá 2011 flutti útgáfan á Selfoss, þar sem boðið er upp á námskeið og markaðsdaga og opin hús fyrir áskrifendur og lesendur. Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins – Stefnumót við Múlatorg er haldin í júli ár hvert, þar er boðið upp á tónlistaupplifun, fræðslu og fjölbreyttan markað. Í ár verður sumarhátíðinn tileinkuð tímamótum blaðsins og haldið verður veglega upp á þrítugasta útgáfuárið. Sumarhátíðin okkar, Stefnumót við Múlatorg verður haldið í ár laugardaginn 16. júlí að Fossheiði 1 á Selfossi.

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn er lífsstílstímarit, umfjöllunarefnið; sumarhúsalíf, garðahönnun, garðyrkja, smíðar og handverk og ferðalög um íslenska náttúru. Á árinu 2022 verða gefin út 4 tölublöð – hvert þeirra 100 síður af glæsilegu efni.

Dagatal 2021

Loftmyndir af Íslandi prýða dagatalið fyrir 2021 að þessu sinni. Ljósmyndarinn Páll Jökull Pétursson hefur ferðast víða um land á undanförnum árum sem leiðsögumaður og ljósmyndari og hefur fangað fegurð landsins sem þið fáið hér að njóta í heilt ár.

Hægt er að panta dagatalið hér og fá það sent heim.

2021 Calendar.png

Takið vel á móti nýju ári!

Við sendum heim.

Lauftré á Íslandi komin úr prentun

Lauftré á Íslandi er nú komin aftur, önnur prentun.

Lauftré á Íslandi er nú komin aftur, önnur prentun.

Bókin Lauftré á Íslandi sem er númer 2 í bókaflokknum Við ræktum er nú loks fáanleg á ný. Bókin hefur verið uppseld í nokkur ár, en hún var prentuð fyrst árið 2004 en er nú komin út í annarri prentun. Við höfum bætt við fjölda tegunda og nýjum myndum auk þess að hafa uppfært og bætt við upplýsingum við eldri tegundir.

Hægt er að forpanta bókina á vefnum okkar og fá hana senda heim í pósti. Verðið er aðeins kr. 5.500.- með heimsendingu.

Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins

Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins, verður haldin laugardaginn 11. ágúst, frá 14-17.

Staðsetning: Fossheiði 1, Selfossi.

Gestum er boðið að skoða garðinn þar sem fjöldi tegunda er í blóma. Plönturnar í æta hrauknum eru í fullum blóma og einnig má sjá lóðréttan blómavegg sem er nýjasta viðbótin í garðinum. Páll Jökull Pétursson verður með ljósmyndasýningu og lifandi tónlist á pallinum.

 

Skordýr gagnleg í garðinum

Skordýr eru mörg afar gagnleg og býflugurnar sjá um að frjógva blómin. Þær búa sér til bú í haugum, gjótum og undir pallinum. Hvet ykkur til þess að amast ekki við þeim og láta þær afskiptalausar. Þær mesta lagi stinga ef þið stigið á þær. Ef þær rata inn þá er auðvelt að ná þeim með því að setja glas yfir, smeygja blaði undir glasið, bera þær svo út og sleppa í frelsið.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.53.31.png

Nýtið blómin og kryddjurtirnar

Nýtið ykkur æt blóm í klaka sem flott er að setja út í vatn eða sumardrykki. Skógarmalva (Malva sylvestris) er hér á myndinni. Prófið líka að frysta í klaka hádegisblóm (Dorotheanthus bellidiformis), fjólur (Viola tricolor), stjúpur (Viola x wittrockiana) sem öll eru með milt bragð og skáblað (Begonia x tuberhybrida) ef vilið þið fá súrt bragð.

Betlehemstjarna (Campanula isophylla) var vinsælt inniblóm fyrir nokkrum áratugum en er nú notuð til prýði í hengipotta og ker úti við. Hún er með fallegar bláar klukkur og afar blómviljug. Til að hún lifi frá ári til árs þá er lag að taka hana inn á haustin og geyma yfir veturinn inni í óupphituðu gróðurhúsi eða undir yfirbreiðslu.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.49.26.png

Nýtið kryddjurtirnar ykkar jöfnum höndum og þær vaxa. Notið graslaukinn, hjálmlauk og skessujurt allt sumarið og svo eftir því sem plönturnar vaxa til matagerðar. Ef vöxturinn er meiri en þið fáið torgað jafnóðum þá er tilvalið að búa til kryddolíur, þurrka kryddið til seinni nota eða útbúa súputeninga með því að frysta kryddið í vatni og geyma. Ekkert ætti að þurfa að fara til spillis.

Sumarklipping

Í sprettunni er lag að formklippa limgerðin til að halda lögun þeirra og eftir að blómgun líkur má huga að snyrtingu runna sem blómgast á greinar sem uxu á síðasta ári. Birkikvistur og sigurkvistur eru dæmi um tegundir sem blómstra á tveggja ára greinum og flestar runnarósir eiga það sameiginlegt með þeim.

Með steinum fæst náttúrlegt yfirbragð í garðinn og ef þeir eru í stærra lagi fanga þeir athygli barna sem leiksvæði til að príla í. Með þeim má móta landslag, nota þá til stuðnings við upphækkuð beð og til að fanga sólarylinn sem þeir gefa svo frá sér er kólnar á næturnar. Í æta hraukbeði sýningar- og kennslugarðs Sumarhússins og garðsins er 1,5 tonna steinn sem fluttur var í garðinn í vor.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.32.08.png

Slöngusúra (Polygonum bistorta ssp. carneum) er ágætis matplanta. Blöðin eru með súrum keim og góð í salöt og steikt eða léttsoðin. Meyjarsköldur (Ligularia dentata) með sín fallegu dökku blöð er líka ætur. Leggirnir sem vaxa upp á vorin eru notaðir í matseld.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.33.34.png

Í júlí er blaðvöxtur í hámarki og er líða tekur á mánuðinn og í ágúst þroskast aldin og ber og undir lok ágúst þroskast brumin og plönturnar ljúka vexti. Þá tekur rótarkerfið við sér og það er tilvalinn tími til að nýta í flutning á trjám og runnum. Vanda þarf til verksins, ef verið er að flytja eldri tré og runna þá þarf að rótarstinga kringum plöntuna að vori eða jafnvel árið áður. Rótarhnausinn sem fylgir plöntunni þarf að vera í samræmi við stærð hennar og stingið hann varlega upp þannig að moldin losni sem minnst frá rótunum.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.35.48.png

Túlípanalaukar setja fallegan svip á beðin er þeir eru í blóma í júní og júlí. Blöð og blóm eru æt og er tilvalið að nýta nokkur blöð og blóm í matseld. Varist að taka öll blöðin því laukurinn þarfnast þeirra til stækkunar og þroska. Er blómin falla og blöðin verða rytjuleg er tilvalið að hafa sáð salatfræum og rækta salat í sama beði. Það vex svo langt fram á haust og hylur túlipanablöðin.

 

Sígræn og til skrauts allt árið

Í Fossheiðargarðinum þekja hnoðrar, steinbrjótar og húslaukur gróðurbeðin og tegundirnar eru í kerjum og pottum. Litbrigði tegunda innan ættkvíslanna eru einstök. Blaðlitir ná yfir allan grænskalann, rauða tóna og gula. Mismunandi blaðgerð og fegurð blómanna á einnig stóran þátt í því að menn hafa nýtt sér þessar ættkvíslir á listrænan hátt.

Sáning beint í matjurtagarðinn

Gulrætur, hnúðkál, klettasalat, mizunakál, næpur, pastinakka, radísur, salat, sinnepskál og spínat er ekki þörf á að forrækta og hægt er að sá þeim beint út í matjurtagarðinn í maí -júní. Salat, spínat og radísur eru dæmi um tegundir sem hægt að sá nokkrum sinnum yfir sumarið. Heppilegur jarðvegshiti við sáningu er talinn vera um 6-7°C. Sáð er í hæfilega raka mold og tryggja skal að jarðvegurinn þorni ekki meðan fræin eru að spíra.

Áburður í matjurtagarðinn

Áburður er ýmist lífrænn í formi moltu, saurs og hlands búfjár, fiskimjöls, þörungamjöls eða svokallaður tilbúinn áburður. Tilbúinn áburður er unninn úr andrúmsloftinu og jarðefnum. Plöntur nýta sér um 18 – 20 frumefni til að geta vaxið og fjölgað sér. Í ræktun er þörf á að bregðast við ef eitthvert efnanna skortir til að tryggja góða uppskeru.

Nýtt útlit - glæsilegt blað

SG_4tbl_2017.jpg

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn tók nokkrum stakkaskiptum við útkomu haustblaðsins okkar, 4. tbl. 2017, þar sem nýr útlitshönnuður hefur tekið við útlitshönnun blaðsins. Það er Sóley Stefánsdóttir grafískur hönnuður sem hefur tekið við því starfi sem Páll Jökull hefur sinnt síðustu 20 árin við umbrot tímaritsins. Við sjáum nú þegar nokkrar breytingar og aðrar áherslur sem fylgja nýjum starfskrafti, en Sóley hefur í fjölda ára haft mikinn áhuga á umhverfismálum. 

Ein af breytingunum sem hafa nú þegar orðið er að við skiptum um pappír, erum nú með aðeins þykkari, mattan pappír sem þykir hafa umhverfisvænna yfirbragð.

Við hlökkum til að fá að vinna með Sóleyju við að gera blaðið okkar ennþá betra og fallegra.

Nammi gott með salati og eggjasnafs

Er ég var barn útbjó móðir mín heimsins besta sumarrétt sem við systkinin höfðum mikið dálæti á. Eggjasnafssúrmjólk með salati og ávöxtum. Þeir sem hafa ræktað salat í sumar ættu að prófa og nóg er úrvalið af salati í verslunum þessa dagana. Það sem mamma notaði í réttinn var höfuð af blaðsalati, 2 egg sem voru hrærð með 2 matskeiðum af sykri þar til blandan var freyðandi og 7 dl. af súrmjólk. Auk þessa allskyns ávextir sem til eru hverju sinni. Brytjað salat er sett í fallega víða skál, súrmjólkur eggjasnafsi er helt yfir og ofaná eru sett bláber, epli, vínber eða þeir ávextir sem þér þykir bestir.

Ekki bíða með að uppskera

Þau ykkar sem eru að rækta krydd og matjurtir hvet ég til að uppskera jöfnum höndum þegar jurtirnar eru sprottnar og ekki bíða þar til þær vaxa úr sér eða tréna. Taka utan með salatinu, klípa blöð af kryddinu og freistast til að fara undir kartöflugrösin og sækja í soðið eina og eina kartöflu. Fátt er betra en nýupptekið grænmeti og ferskt krydd. 

Blómlegt salat

Til að fegra og bragðbæta salatið og matinn er skemmtilegt að nota æt blóm í ýmsum litum. Stjúpur og morgunfrú ásamt skjaldfléttu, fjólu, begoníu og brúsku eru dæmi um æt blóm sem nota má. Svo getur maður valið litinn því kjósir þú bláan þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Hér að ofan eru myndir af blómunum sem talin eru upp.