Stefnumót við Múlatorg 16. júlí 2022
/Nú fögnum við. Tilefnið er ærið. Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn hefur verið gefið út í 30 ár. Sumarhátíð okkar Stefnumót við Múlatorg er tileinkuð tímamótunum. Við höfum boðið áskrifendum okkar, viðskiptavinum og þjóðinni allri í garðinn að Fossheiði 1 á Selfossi síðustu átta ár. Þar höfum við ætíð verið með einstaklega áhugaverð skemmtiatriði, fræðslu, sýningar og markaðstorg. Í ár er viðhafnarbragur á hátíðinni.
Sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar er Elmar Gilbertsson, tenórsöngvari. Elmar er með eina fegurstu rödd landsins og mun syngja fyrir gesti í Fossheiðargarðinum. Raftónlistardúettinn Huldumaður og víbrasjón sem þau Hekla Magnúsdóttir og Sindri Freyr Steinsson skipa, spilar áhugaverða tónlist á þeramín og gítar. Auk þessa verður Páll Jökull Pétursson ljósmyndari með glænýjar myndir úr náttúru Íslands. Í boði verður sýning á exótískum dýrum. Froskasmalinn, Amanda MacQuin, leyfir gestum að skyggnast inn í allsérstakt áhugamál sitt. Goðlingar, afkvæmi Norrænna guða, bjóða seið og lækningajurtir undan rótum Yggdrasils og Páll Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði ræðir við gesti um samspil fólks og umhverfis. Fræðsla, kynningar og sýningar á allskyns plöntum setja svip sinn á hátíðina og ásamt svo mörgu öðru.
Á markaðstorgið höfum við þegar bókað 25 aðila sem bjóða til sölu vandað handverk, listmuni, vörur fyrir sumarhúsið og garðinn og ótal margt annað. Nokkur fyrirtæki verða með uppstillingar og dreifingu upplýsinga á markaðinum.
Í ár er hátíðin einstök, fræðslan mögnuð og tónlistaratriðin afar metnaðarfull. Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins er einstök upplifun og það er frítt á hátíðina.
Með kærri kveðju
Auður I. Ottesen, Páll Jökull Pétursson