Haustið er komið

Gjáin í Þjórsárdal

Gjáin í Þjórsárdal.

Haustlitirnir njóta sín í þverrandi birtu og ökuferð í skóglendi, ganga um berjavaxnar fjallshlíðar og garðinn er sannarlega augnakonfekt. Ég verð með námseið í vistrækt og hraukbeðagerð í mánuðinum og við Petra Stefánsdóttir blómaskreytir höfum verið að safna að okkur efnivið í okkar árlega haustkransanámskeið. Námskeiðið sló í gegn í fyrra og skráning á námskeiðin fer vel að stað í ár. Við verðum með Opið hús – haustfagnað, 22. október í Fossheiði 1 á Selfossi. Takið daginn frá og hjartanlega velkomin.

 

Laufið og sölnuðu stönglarnir

Ekki amast yfir laufinu, laufið er teppið sem þekur jarðveg og veitir honum skjól. Þykk lög af því eru ekki heppileg á grasfletinum og því skynsamlegt að raka þau og setja út í blómabeðin eða geyma til íblöndunar við lífrænar eldhúsleifar fyrir veturinn. Laufið verður orðið að mold að vori og aðgengileg fæða fyrir ánamaðka er þeir skríða upp eftir vetrardvala. Eins ættuð þið ekki hreinsa burt visna stöngla af fjölærum plöntum. Leyfum þeim að vera þær hlífa rótinni yfir veturinn.

 

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Nú er tími haustlaukanna

Haustlaukranir mynda rætur fyrir frost og eru tilbúnir að vaxa strax er hlýnar á vorin. Við hvetjum garð- og sumarhúsalóðaeigendur að kíkja á úrvalið sem er afar fjölbreytt í ár. Klókt er að velja laukategundir sem blómgast á mismunandi tímum og setja niður í þyrpingar í beðin, crókusa í grasflötina, túlípana og páskaliljur í beðin og keisarakrónuna þar sem vænta má músagangs því litlu nagdýrunum hugnast ekki lyktin af lauknum. Þumalputtareglan í gróðursetningunni er að laukarnir far þrisvar stærð lauksins niður og bilið á milli laukanna er áþekkt. Laukar gera mikið fyrir garðinn, þeir eru ódýrir og hægt er að velja milli fjölda tegunda, hæðar, blómlita og lögunar.

 

Doka við með snyrtingu trjáa

Ekki klippa trjágróður á haustin sem móttækilegur er fyrir átusmiti. Áta er sveppasjúkdómur sem herjar á lerki, reyni, gullregn og víði. Gróin eru í mesta mæli á sveimi á haustin og eiga greiðan aðgang að sárinu sem myndast þegar greinar eru sneiddar af trjánum. Bíðið fram í febrúar með snyrtingar á þessum tegundum.

 Safnið fræjum af fjölæringum

Er vorar er spennandi að eiga fræ til að láta spíra meðan vorsins er beðið. Notarlegt er að sjá nýgræðinginn teygja sig upp úr moldinni meðan enn er kalsi í veðri og gróandinn enn í dvala utandyra. Safnið endilega fræjum, þau sem ekki þurfa kaldörvun eru þurrkað og geymd á svölum stað fram í mars – apríl og þá er þeim sáð.

Fyrirheit um fagurt vor

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Haustið er dásamlegur tími, náttúran breytir um lit úr grænu í fagurgula tóna, roðarauða og koparlita. Svo fer laufið að falla sem sæng yfir lággróðurinn og við potum niður haustlaukunum, túlípönum, páskaliljum og krókusum. „Haustlaukarnir eru fyrirheit um fagurt vor,“ sagði Hafsteinn Hafliða, er hann vann í Blómaval sem þá var við Sigtún, og er það hárrétt.

Haustlaukar – nú er tíminn
Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geta verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. 

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Hvítlaukur auðræktanlegur á Íslandi
Ég hvet þá sem ekki hafa prófað að rækta hvítlauk til að prófa. Fáanleg eru í garðyrkjuverslunum harðgerð hvítlauksyrki sem henta vel til ræktunar hér á landi. Sjálf er ég að prófa 8 ný yrki en ég hef ræktað hvítlauk í nokkur ár með góðum árangri. Hvítlaukurinn er settur niður á haustin eins og túlípanalaukarnir, því hvítlaukurinn þarf kaldörvun til að mynda rif. Veljið skjólgóðan og sólríkan stað með djúpunninni, loftríkri og frjórri mold. Útsæðislaukurinn er tekinn í sundur og stærstu rifin notuð til framhaldsræktunar. Hvítlaukurinn þarf að fara 8-10 cm niður og milli þeirra og raða er heppilegt að vera með 10 cm.