Grænmetisuppskera - Auður allt árið
/Auður sýnir okkur öllum að þó að ræktun taki langan tíma, þá borgar hún sig alltaf. Hér er hún að sýna uppskeruna sína og fyllir fangið af grænu gómsæti.
Auður sýnir okkur öllum að þó að ræktun taki langan tíma, þá borgar hún sig alltaf. Hér er hún að sýna uppskeruna sína og fyllir fangið af grænu gómsæti.
Við sem ræktum grænmeti, krydd og skrúðmeti erum lukkunnar pamfílar. Haustið er sá tími sem húsið fyllist af grænmeti. Kartöflurnar fara í rimlakassa og eru geymdar í bílskúrnum þar sem hitinn fer ekki niður fyrir 4°C. Gulrætur og annað rótargrænmeti er sett í kassa umlukið sandi og geymast á svölum stað. Káltegundir er gott að súrsa eða sjóða niður. Kálið gufusýð ég í 2-4 mínútur og snöggkæli undir kaldri vatnsbunu áður en ég set í frysti. Stilksellerí þurrfrysti ég. Krydd ýmist þurrka ég eða frysti í vatnsteningum. Fátt jafnast á við góðan vetraforða og aðgengi að eigin grænmeti.
Hér sýnir Auður hvernig hægt er að taka sumargræðlinga og þannig fjölga plöntum.
Þau ykkar sem eru að rækta krydd og matjurtir hvet ég til að uppskera jöfnum höndum þegar jurtirnar eru sprottnar og ekki bíða þar til þær vaxa úr sér eða tréna. Taka utan með salatinu, klípa blöð af kryddinu og freistast til að fara undir kartöflugrösin og sækja í soðið eina og eina kartöflu. Fátt er betra en nýupptekið grænmeti og ferskt krydd.
Til að fegra og bragðbæta salatið og matinn er skemmtilegt að nota æt blóm í ýmsum litum. Stjúpur og morgunfrú ásamt skjaldfléttu, fjólu, begoníu og brúsku eru dæmi um æt blóm sem nota má. Svo getur maður valið litinn því kjósir þú bláan þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Hér að ofan eru myndir af blómunum sem talin eru upp.
Auður sýnir hér hvernig á að snyrta limgerði.
Ef borinn er áburður á grasflötina 2-3 sinnum yfir sumarið verður flötin iðagræn og sprettan góð. Ég hvet ykkur til að nýta nýslegið grasið undir limgerðin og í safnhauginn. Einnig í kartöflugarðinn til að slá á illgresisvöxtinn, um 3-5 cm lag gerir það að verkum að ljósið nær ekki að næra illgresið. Limgerði má klippa yfir sumarið, fara með klippurnar eftir því og jafna vöxtinn er líða tekur á júlí.
Njótið þess að rækta salat og spínat í sumar. Þessar tegundir eru auðveldar í ræktun og hægt er að sá til þeirra nokkrum sinnum yfir sumarið. Þá er líka flott að sá radísum en þær, eins og hinar tegundirnar, eru með stuttan vaxtartíma. Spínatið sprettur á 5-6 vikum, salat á 7-9 vikum og radísur þurfa um 5-8 vikur.
Auður I. Ottesen, gefur upplýsingar um kartöflurækt.
Mosinn (Bryophyta) dafnar vel í sumarbyrjun. Hann vex við allt að 4°C hita og er því að spretta löngu áður en grasið fer af stað á vorin og verður þá áberandi í grasfletinum. Mosinn þrífst vel í skugga og þéttum jarðvegi. Ef mönnum líkar ekki mosinn þá er lag að raka hann úr sverðinum og setja í safnhauginn þar sem hann umbreytist í mold. Sé jarðvegurinn þjappaður þykir gott að stinga með stungugafli í svörðinn til að mynda holrými sem fyllt er með fínum sandi til að auka loftun í sverðinum. Svo er lag að kalka flötinn og bera á grasið alhliða áburð til að auka grassprettuna og efla ræturnar.
Maður getur verið að glíma við snigla allt sumarið en um þessar mundir eru þeir að klekjast úr eggjunum. Sniglar eru sólgnir í bjór og er bjórgildra árangursrík aðferð til að fækka sniglum. Grafin er dollu með bjór eða pilsner í moldina og falla sniglarnir ofaní og komast ekki uppúr. Þeir sækja í skugga og fúin fjöl er prýðis söfnunargildra eins sækja þeir í appelsínubörk og hægt að ganga að þeim vísum inni berkinum að degi til og þar er auðvelt að vitja þeirra og fjarlægja. Göngutúr í garðinum eftir klukkan tíu á kvöldin gæti líka verið árangursríkur en þá eru sniglarnir svangir í rekjunni og hægt að góma þá ofan á kálhöfði eða milli salatblaðanna.
Fátt er betra en nýupptekið krydd beint úr garðinum á steikurnar, í pottrétti og í salöt ásamt ætum blómum. Sumarið er tíminn til að rækta krydd í pottum á svölunum, á pallinum eða úti í beði. Kaupið forræktaðar plöntur og raðið þeim saman og njótið þess að ná ykkur í ferskt krydd í matinn. Svo fegrið þið salatið með ætum blómum af skjaldfléttu, begoníu og brúsku og skreytið kökurnar með fjólum og stjúpum. Möguleikarnir eru margir, kjósir þú bláan lit þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Fjólublá blóm graslauksins eru æt og bera keim af graslauk, þau eru falleg með appelsínulituðum blómum morgunfrúarinnar í salatið.