Garðverkin í sumarbyrjun

Texti: Auður I. Ottesen. Myndir: Páll Jökull Pétursson.

Yndislegt gluggaveður og veðurblíða hvetur mann til að drífa sig út í garð. Vorið hefur verið svalt, mars kaldur en aprílhitinn í meðallagi. Óskandi er að sumardagurinn fyrsti beri með sér bjarta og ljúfa daga svo maður geti farið berfættur út í garð.

Nú er tími til að hugleiða hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Náttúran er enn í vetrardvala og ef einhver á eftir að klippa limgerðið þá er bara að drífa sig. Tímabært að snyrta rósirnar og runnana í garðinum. Hlúa að viðkvæmum plöntum með því að setja greinar yfir þær og sveipa striga yfir sígrænan lággróður til að verja hann fyrir sterkri vorsólinni. Viljið þið gefa grannanum af fjölæringunum í garðinum þá er tíminn núna að skipta þeim ef þeir eru orðnir frekir á plássið. Svo má fara að eiga við mosann, stutt í fyrsta slátt og koma kartöflunum niður.


Mosinn dafnar í sumarbyrjun

Mosinn (Bryophyta) dafnar vel í sumarbyrjun. Hann vex við allt að 4°C hita og er því að spretta löngu áður en grasið fer af stað á vorin og verður þá áberandi í grasfletinum. Mosinn þrífst vel í skugga og þéttum jarðvegi. Ef mönnum líkar ekki mosinn þá er lag að raka hann úr sverðinum og setja í safnhauginn þar sem hann umbreytist í mold. Sé jarðvegurinn þjappaður þykir gott að stinga með stungugafli í svörðinn til að mynda holrými sem fyllt er með fínum sandi til að auka loftun í sverðinum. Svo er gott að kalka flötinn og bera á grasið alhliða áburð til að auka grassprettuna og efla ræturnar.

Vorlaukarnir eru gleðigjafi

Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, glitfíflum (Dahlia), snotrum (Animone) og liljum (Lilium). Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum eða gróðurhúsinu í maí á meðan maður bíður eftir því að það verði nógu hlýtt til skunda út í garð og gróðursetja þau.


Bleikja rabarbarann
Maður er sólginn í ferskt úr garðinum og það sem sprettur einna fyrst á vorin er hjálmlaukurinn (Allium x proliferum) og einnig graslaukurinn (Allium schoenoprasum) sem er kominn af stað og um að gera að nýta sér hann. Nýsprottnir stönglarnir af brúsku (Hosta) eru notaðir í matseld í Asíu og ég hvet ykkur til að prófa að matreiða þá. Eins að flýta fyrir rabarbaranum (Rheum x cultorum) með því að setja stóran pott yfir einn eða tvo hnausa til að bleikja leggina. Hann vex í myrkrinu og leggirnir verða rauðleitir og sætari á bragðið og því góðir í fyrsta rabararagraut sumarsins.


Góður tími til að gróðursetja tré

Nú þegar fínrætur trjáa og runna myndast eftir vetrardvala þá er kjörið að huga að gróðursetningu og flutningi ef það stendur til. Gætið að því að rótarstinga góðan hnaus með runnum og trjám sem á að flytja og vanda verkið þannig að hnausinn haldist saman. Sé plantan gömul þarf að flytja tré í áföngum, rótarstinga til hálfs í kringum plöntuna að vori og flytja hana síðan í haust þegar lauf hafa fallið. Yfir sumarið myndar rótin nýjar rætur næst stofninum þar sem stungið var. Það auðveldar plöntunni að koma sér fyrir á nýjum stað og eykur líkurnar á að flutningurinn takist.


Þykir þjóðlegasti siður

Nú er tíminn til að spíra kartöflurnar (Solanum tuberosum). Brýnt er að nota viðurkennt útsæði og freistast ekki til að nota kartöflur sem keyptar eru í matvöruverslunum. Bakteríur, sveppir og vírusar geta gert usla í ræktuninni. Nokkrir bændur á Íslandi rækta útsæðiskartöflur undir eftirliti til að tryggja að neytendur eigi aðgang að góðu útsæði án sjúkdóma. Til að flýta fyrir þá eru kartöflur látnar spíra í 4-6 vikur í birtu en ekki í beinni sól. Hefðbundið kartöflubeð er stungið upp, gott er að auka frjósemi jarðvegsins með um fjórum skóflum af hrossaskít  eða um einum lítra af hænsnaskít á hvern fermetra. Til að fullnægja áburðarþörfinni, ef kosin er lífræn ræktun, þá er til bóta að koma til móts við snefilefnaþörfina með með 1-2 lítrum af þörungamjöli á hvern fermetra. Kjósi fólk að nota Blákorn þá inniheldur kyrnið öll þau næringarefni sem kartaflan þarfnast. Borið er tvisvar til þrisvar á yfir sumarið um þrjár matskeiðar á hvern fermetra.

Gott er að hafa í huga eftirfarandi:

  • Of lítið köfnunarefni dregur úr uppskeru.

  • Of mikið köfnunarefni veldur því að kartöflugrösin verða stór, undirvöxtur lítill og þurrefnið í þeim minnkar.

  • Kalí eykur uppskeru, of mikið minnkar þurrefni.

  • Kalísúlfat hentar kartöflum, ekki kalíklórid.

  • Aukið fosfór eykur þurrefnisinnihald og þar með gæði kartafla.

  • Kalk er að öllu jöfnu ekki borið á kartöflugarða.

Millibil 25-35 sm milli kartaflanna og 35-50 sm milli raða. Gott er að setja nýslegið gras yfir moldina til að hindra vöxt illgresis. Svo ber að hafa í huga, til að forðast jarðvegsþreytu og sjúkdóma, að rækta kartöflur ekki lengur en fjögur til fimm ár á sama stað.


Sáning krydds, matjurta og sumarblóma

Sáning er gefandi iðja, uppskeran er fyrirheit um blómríkt sumar og gæði á matardiskinn. Nú hugum við að sáningu sumarblóma, matjurta og krydds. Í blómaverslunum fæst úrval af fræi sem er yfirleitt af góðum gæðum. Hægt er að velja fræ sem hefur frjóvgast náttúrulega, svokallað F1 fræ þar sem foreldrarnir eru sérvaldir vegna gæða og útlits. Val á F1 fræi getur skipt máli ef maður vill einsleitar plöntur og er helst notað í matjurta- og sumarblómaræktun. Svo er hægt að velja fræ þaðan sem fræplönturnar hafa verið ræktaðar með lífrænum hætti.

Stjúpur, fjólur, fagurfífill og rósmarin eru tegundir sem þurfa langt vaxtartímabil og er sáð fyrir í febrúar. Fjölda kryddtegunda, s.s. salvíu, majoran, hrukkblaða steinselju, lavender, oregano, garðablóðbergi ,sítrónumelissu, stilkselleríi, púrru og öðrum lauktegundum er sáð í mars fram í byrjun apríl. Sumarblómafræ sem þarf að sá í mars eru brúðarauga, frúarhattur, meyjarblóm, brúðarstjarna, daggarbrá, fiðrildablóm, hádegisblóm, ilmskúfur og skógarmalva. Öðrum krydd-, grænmetis- og sumarblómategundum er sáð um miðjan apríl og svo eru enn aðrar sem sáð er beint út í beð í maí og júní. En hafið hugfast að sáningartíminn er ekki alveg heilagur, heldur er það vaxtartíminn, hitastig, birta og næring sem eru lykilinn að góðri ræktun. Miðað er við að forræktuðu plönturnar séu settar út er jarðvegurinn hefur náð um 8°C og lofthitinn um og yfir 6-8°C.

Sáning

Við sáningu þarf að gæta vel að hreinlæti, þrífa öll ílát vel til að fyrirbyggja sveppasýkingu og alltaf má eiga von á að sniglaegg leynist í notuðum ílátum. Auk potta og bakka er hægt að nota jógúrtdósir, skyrdollur og bakka undan kjötvöru séu þau götuð til að vatn eigi greiðan aðgang frá þeim. Algengast er að nota sáningarmold sem er næringarlítil mold en ef kosið er að sá beint í pott þar sem planta fær að vaxa upp er klókt að vera með næringarríkari mold að hluta og sáðmold í efstu tveimur sentimetrunum. Fræin spíra í sáðmoldina og rótin vex síðan niður í næringarríkari mold. Með þessu sparast að dreifplanta í stærri pott. Sáningarmoldin þarf að vera vel rök þegar sáð er. Í fræbréfum er mismikið af fræi og oft dugar það til nokkra ára. Sáið ofan á sáðmoldina þannig að eilítið bil sé á milli fræjanna. Yfir þau er síðan sáldrað, u.þ.b. tvöföldu lagi af mold eða fínum vikri til að hylja þau. Merkið svo hverja tegund með merkimiða og vökvið varlega yfir. Gott er að setja plast yfir sáninguna eða dagblað til að halda raka að moldinni á meðan fræin eru að spíra. Yfirleitt er fræ um 3-14 daga að spíra og plöntunum, sem er sáð í bakka eða potta, þarf að dreifplanta eftir að kímblöðin, sem eru fyrstu tvö blöðin sem vaxa upp af fræinu, hafa vaxið.

Heppilegt hitastig við sáningu fyrir flestar tegundir er um 20-25°C en við ræktun þarf það að vera lægra, um 12-17°C. Sé hitastigið hátt og lýsing ónóg hættir plöntunum við að spíra og verða renglulegar. Góð birta er nauðsynleg og nú þegar daginn er farið að lengja er dagsljósið nægilegt við glugga. Sé það ekki nóg getur verið þörf á að nota raflýsingu til að fullnægja þörfum plöntunnar fyrir birtu.

 

Garðverkin að vetri


Texti: Auður I. Ottesen, Steinar Björgvinsson. Myndir: Páll Jökull Pétursson.

Yfir vetrartímann er kjörið að hugleiða hvað hægt sé að gera í garðinum eða sumarhúsalandinu til að bæta skjól, lýsingu og til að fegra með sígrænum gróðri. Lýsing niður við jörð hjálpar til að rata að híbýlum og eykur öruggið er þegar gangvegir verða ísilagðir. Vetrarstormar sveigja trén og beygja. Nýgróðursett tré er hyggilegt að staga niður og skýla viðkvæmum runnum og fjölærum plöntum.

 Trjáklippingar
Sumir vilja munda klippurnar á haustin en hafa verður í huga að ákveðnum tegundum hættir frekar við sveppasýkingu þegar verið er að saga og klippa greinar. Gullregn, lerki, hlynur og ávaxtatré eru tegundir sem eru viðkvæmar fyrir sveppasýkingum og best er að klippa þær á sumrin. Barrtré, sem eru full af harpixi, er í lagi að klippa á haustin og veturna. Það er allt í góðu að klippa grenilimgerði, rifsrunna, sólberjarunna og hindberjarunna seinni hluta vetrar, eins mispilslimgerði. Fjallarifsið má klippa á veturna.

 


Ekki henda laufblöðum!
Laufblöð er dýrmætt lífrænt efni sem ekki á að henda. Þau brotna fljótt niður og eru góður og frjósamur áburður og jarðvegsbætir. Laufin eru falleg þekja undir trjám, setið þau í blómabeðin eða matjurtagarðinn og þau verða orðin að mold fyrir sumarið. Ef fólk vill fallegar grasflatir ætti að fjarlægja laufblöðin af þeim þar sem þau geta valdið „skallablettum“ ef lagið er of þykkt.

Sígrænar plöntur í skreytingar
Er sígrænar plöntur í garðinum eldast þá er tilvalið að nýta greinar af þeim í skreytingar. Einir, lífviður og tugja þéttast við klippingu og endilega nýtið neðstu greinarnar af greni ef verið er að snyrta trén. Eins er með furuna, oft getur þurft að snyrta hana og þá er grein klippt við greinaröxl.

Jólarós í blóma um hávetur
Jólarósin (Helleborus niger) er víða í Evrópu vinsælt jólablóm, bæði afskorin og sem pottablóm. Plantan er líka eftirsótt garðplanta og finnst hér á landi í nokkrum görðum. Nú er hægt að kaupa stórar og fallegar jólarósin í blómabúðum í mörgum litbrigðum. Hvít sem er með stór og hvít blóm er einna vinsælust ásamt fölgrænu afbrigði

Jólarósir eru smartar í skreytingar í pottum á veröndinni. Blómin á jólarósinni standa óvenju lengi og því svalara sem er þeim mun lengur standa þau. Hún blómstrar í görðum frá desember fram í apríl. Hún er að kíkja upp úr snjónum um hávetur og vekur ætíð aðdáun. Til eru nokkrar þjóðsagnalegar frásagnir um uppruna jólarósarinnar. Ein sagan segir frá örvæntingu fjárhirðis sem var vitni að fæðingu Jesú yfir að hafa gleymt gjöf til að færa Jesúbarninu. Dóttir hans varð svo leið að hún felldi tár. Tárið féll í svörð og jólarósin óx upp þar sem það hafði fallið. Þið ráðið því hvort þið trúið þessu.

 

Haustlaukar
Flestir eru nú búnir að setja niður haustlaukana en ef einhver á enn lauka er í lagi, þegar ekki er frost í jörðu, að setja þá niður. Laukurinn þarf að geta sett út rætur og komið sér fyrir áður en vetur gengur í garð því hann er í startholunum strax á vorin. Ef fólk er enn með lauka í desember, ætti frekar að setja þá niður en geyma þá, því þeir eiga til að skemmast og þorna upp.

Keisarakróna (Fritillaria) er hávaxin tegund sem gefur falleg gul eða appelsínurauð blóm. Laukurinn er ilmsterkur og þykir henta vel til að minnka ásókn músa í húsakynni, sumarbústaði og hjólhýsi. Laukurinn er skorinn í bita og dreift á þá staði sem mýs eru ekki velkomnar.

Perlulilja (Muscari) og kúlulaukur (Allium sphaerocephalon)

Haustið er komið

Gjáin í Þjórsárdal

Gjáin í Þjórsárdal.

Haustlitirnir njóta sín í þverrandi birtu og ökuferð í skóglendi, ganga um berjavaxnar fjallshlíðar og garðinn er sannarlega augnakonfekt. Ég verð með námseið í vistrækt og hraukbeðagerð í mánuðinum og við Petra Stefánsdóttir blómaskreytir höfum verið að safna að okkur efnivið í okkar árlega haustkransanámskeið. Námskeiðið sló í gegn í fyrra og skráning á námskeiðin fer vel að stað í ár. Við verðum með Opið hús – haustfagnað, 22. október í Fossheiði 1 á Selfossi. Takið daginn frá og hjartanlega velkomin.

 

Laufið og sölnuðu stönglarnir

Ekki amast yfir laufinu, laufið er teppið sem þekur jarðveg og veitir honum skjól. Þykk lög af því eru ekki heppileg á grasfletinum og því skynsamlegt að raka þau og setja út í blómabeðin eða geyma til íblöndunar við lífrænar eldhúsleifar fyrir veturinn. Laufið verður orðið að mold að vori og aðgengileg fæða fyrir ánamaðka er þeir skríða upp eftir vetrardvala. Eins ættuð þið ekki hreinsa burt visna stöngla af fjölærum plöntum. Leyfum þeim að vera þær hlífa rótinni yfir veturinn.

 

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Keukenhof garðurinn í Hollandi.

Nú er tími haustlaukanna

Haustlaukranir mynda rætur fyrir frost og eru tilbúnir að vaxa strax er hlýnar á vorin. Við hvetjum garð- og sumarhúsalóðaeigendur að kíkja á úrvalið sem er afar fjölbreytt í ár. Klókt er að velja laukategundir sem blómgast á mismunandi tímum og setja niður í þyrpingar í beðin, crókusa í grasflötina, túlípana og páskaliljur í beðin og keisarakrónuna þar sem vænta má músagangs því litlu nagdýrunum hugnast ekki lyktin af lauknum. Þumalputtareglan í gróðursetningunni er að laukarnir far þrisvar stærð lauksins niður og bilið á milli laukanna er áþekkt. Laukar gera mikið fyrir garðinn, þeir eru ódýrir og hægt er að velja milli fjölda tegunda, hæðar, blómlita og lögunar.

 

Doka við með snyrtingu trjáa

Ekki klippa trjágróður á haustin sem móttækilegur er fyrir átusmiti. Áta er sveppasjúkdómur sem herjar á lerki, reyni, gullregn og víði. Gróin eru í mesta mæli á sveimi á haustin og eiga greiðan aðgang að sárinu sem myndast þegar greinar eru sneiddar af trjánum. Bíðið fram í febrúar með snyrtingar á þessum tegundum.

 Safnið fræjum af fjölæringum

Er vorar er spennandi að eiga fræ til að láta spíra meðan vorsins er beðið. Notarlegt er að sjá nýgræðinginn teygja sig upp úr moldinni meðan enn er kalsi í veðri og gróandinn enn í dvala utandyra. Safnið endilega fræjum, þau sem ekki þurfa kaldörvun eru þurrkað og geymd á svölum stað fram í mars – apríl og þá er þeim sáð.

Stefnumót við Múlatorg 16. júlí 2022

Nú fögnum við. Tilefnið er ærið. Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn hefur verið gefið út í 30 ár. Sumarhátíð okkar Stefnumót við Múlatorg er tileinkuð tímamótunum. Við höfum boðið áskrifendum okkar, viðskiptavinum og þjóðinni allri í garðinn að Fossheiði 1 á Selfossi síðustu átta ár. Þar höfum við ætíð verið með einstaklega áhugaverð skemmtiatriði, fræðslu, sýningar og markaðstorg. Í ár er viðhafnarbragur á hátíðinni.

 

Sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar er Elmar Gilbertsson, tenórsöngvari. Elmar er með eina fegurstu rödd landsins og mun syngja fyrir gesti í Fossheiðargarðinum. Raftónlistardúettinn Huldumaður og víbrasjón sem þau Hekla Magnúsdóttir og Sindri Freyr Steinsson skipa, spilar áhugaverða tónlist á þeramín og gítar. Auk þessa verður Páll Jökull Pétursson ljósmyndari með glænýjar myndir úr náttúru Íslands. Í boði verður sýning á exótískum dýrum. Froskasmalinn, Amanda MacQuin, leyfir gestum að skyggnast inn í allsérstakt áhugamál sitt. Goðlingar, afkvæmi Norrænna guða, bjóða seið og lækningajurtir undan rótum Yggdrasils og Páll Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði ræðir við gesti um samspil fólks og umhverfis. Fræðsla, kynningar og sýningar á allskyns plöntum setja svip sinn á hátíðina og ásamt svo mörgu öðru.

 

Á markaðstorgið höfum við þegar bókað 25 aðila sem bjóða til sölu vandað handverk, listmuni, vörur fyrir sumarhúsið og garðinn og ótal margt annað. Nokkur fyrirtæki verða með uppstillingar og dreifingu upplýsinga á markaðinum.

 

Í ár er hátíðin einstök, fræðslan mögnuð og tónlistaratriðin afar metnaðarfull. Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins er einstök upplifun og það er frítt á hátíðina.

 

Með kærri kveðju

Auður I. Ottesen, Páll Jökull Pétursson

Menningarverðlaun Árborgar

Auður I. Ottesen, ritstjóri tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn, hlaut á dögunum menningarviðurkenningu Sveitarfélagsins Árborgar 2022.

Frá því að Auður flutti á Selfoss árið 2011 hefur hún verið virk í viðburða- og námskeiðahaldi bæði í sveitarfélaginu og utan þess. Með menntun sem húsgagna- og húsasmiður, garðyrkjufræðingur, þátttöku í fjölda námskeiða og handhafi PDC, Permaculture Design Certificate ber Auður marga titla og lætur til sín taka hvar sem hún mætir.

Hjónin Auður og Páll Jökull Pétursson eiga útgáfu og þjónustufyrirtækið Sumarhúsið og garðurinn og stendur Auður í dag fyrir útgáfu tímarits og bóka, heldur námskeið og stýrir sýninga- og ráðstefnuhaldi fyrir ólíka hópa af öllum stærðum.

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn kom fyrst út árið 1993 og fyrstu sjö árin var tímaritinu dreift frítt til sumarhúsaeigenda undir nafninu Sumarhúsið. Árið 2009 bættist svo við farsælt námskeiðahald hjá Auði, meðal annars í ræktun mat- og kryddjurta. Um 1.700 nemendur hafa sótt námskeið Sumarhússins og garðsins sem haldin hafa verið víða um land.

Grenndargarðar og stefnumót
Árið 2014 óskaði Auður eftir samstarfi við Sveitarfélagið Árborg við að koma upp grenndargörðum á Selfossi til að efla þátttöku íbúa í ræktun á matjurtum. Auður hefur haldið utan um skipulagningu og viðhald á grenndargörðum á Selfossi. Auður hefur einnig verið í forsvari fyrir gróðursetningu og fegrun við hundasleppisvæðið á Selfossi.

Frá 2014 hefur Auður árlega haldið fjörugan markaðsdag með sýningu og sölu á plöntum, handverki og listmunum í Fossheiðagarði þeirra hjóna við Múlatorg. Næsta Stefnumót við Múlatorg verður haldið laugardaginn 16. júlí nú í ár.

Menningarviðurkenningin var afhent á hátíðinni Vor í Árborg en það var Guðmundur Kr. Jónsson sem afhenti Auði verðlaunin fyrir hönd frístunda- og menningarnefndar Árborgar.

Frétt á www.sunnlenska.is

Krossgátuverðlaun

Í tilefni af 30 ára útgáfuafmæli tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn ákváðum við að veita 10 manns verðlaun fyrir rétta lausn á krossgátunni í 1. tölublaði 2022. Eftirtaldir aðilar fá því senda bókina „A Portrait of Iceland“ sem er ljósmyndabók með íslandsmyndum, höfundur Páll Jökull Pétursson.

Lausn krossgátu í 1. tölublaði. „Hafragrautur“

Björg Árnadóttir, Reykjavík

Steinunn Þórarinsdóttir, Hveragerði

Guðrún Guðnadóttir, Hafnarfirði

Andri Jónasson, Kópavogur 

Halldór Svansson, Reykjavík

Snjólaug Ósk Aðalsteinsdóttir, Akureyri

Níels Bjarki Finsen, Kópavogur

Elín Margrét Hjelm, Selfoss

Sigrún Guðjónsdóttir, Neskaupstað.

Guðný S. Ólafsdóttir, Dalvík.

Garðverkin í mars og apríl

Texti: Auður I. Ottesen. Myndir: Páll Jökull

Við búum í harðbýlu landi og höfum undanfarið fengið að finna fyrir þrautum þorrans og góunnar með stormi og snjókomu. Veðurviðvaranir með gulum og appelsínurauðum lit á veðurkortinu hafa verið nokkuð algengar og drjúgur tími hefur farið í að moka snjó og skafa hrímið af bílrúðunum. Í öllum látunum er náttúran í vetrardvala. Til að garðaflóran beri ekki skaða þá getum við hlúð að því viðkvæmasta, með því að setja greinar yfir smáplöntur og sveipað striga, til að verja sígræna runna fyrir sterkri vorsólinni.

Mars og apríl er forræktunartími sumarblóma, krydd- og matjurta. Hér er listi yfir nokkrar þeirra tegundir matjurta og sumarblóma sem sáð er til í mars og apríl. Sáð er við stofuhita en ræktunarhitastig smáplantnanna er 12-17°C hiti. Ef hitastigið í ræktuninni er of hátt hættir plöntunum til að spíra, sem þær gera einnig ef birtan er ekki næg.

Sáning í mars:

Fagurfífill (Bellis perennis)
Brúðarauga (Lobelia erinus)
Frúarhattur (Rudbeckia hirta)
Meyjablómi (Godetia grandiflora)
Brúðarstjarna (Cosmos bipinnatus)
Daggarbrá (Leucanthemum paludosum)
Hádegisblóm (Dorotheanthus bellidiformis)
Skógarmalva (Malva sylvestris)
Sólblóm (Helianthus annuus)
Skjaldflétta (Tropaeolum majus)
Rósmarín (Rosmarinus officinalis)
Salvía (Salvia officinalis)
Blaðlaukur (Allium ampeloprasum var. porrum)
Majoram (Origanum majorana)
Lavender (Lavandula angustifolia)
Garðablóðberg (Thymus vulgaris)
Bergmynta (Origanum vulgare)
Sítrónumelissa (Melissa officinalis)
Stilksellerí (Apium graveolens)
Vorlaukar (Allium fistulosum)
Tómatar (Solanum lycopersicum)
Chili-pipar (Capsicum)

Sáning í apríl:
Káltegundir (Brassica oleracea)
Gúrkur (Cucumis sativus)
Salattegundir (Lactuca sativa)
Basilika (Ocimum basilicum)
Aftanroðablóm (Lavatera trimestris)
Fiðrildablóm (Nemesia strumosa)
Ilmskúfur (Matthiola incana var. annua)
Skrautnál (Alyssum maritimum)
Steinselja, hrokkin og slétt (Petroselinum crispum)

 

Hugum að smáfuglunum í frostinu
Á veturna bítur frostið og vindur gnauðar. Smáfuglarnir eiga þá oft erfiða daga og skortir vatn og mat. Fita gefur þeim orku í kuldanum og er því gustuk að gefa þeim brauðmola vætta úr olíu eða fituafskurð af kjöti. Þröstur og starri gæða sér á eplum og rúsínum og auðnutittlingurinn kýs.

Rabarbarinn bleiktur
Víða tíðkast erlendis á vorin að setja stóran pott yfir rabarbarann þegar hann er um það bil að hefja vöxt. Í myrkrinu verða leggirnir rauðleitir og sætari á bragðið og það er ljúft að laga sér rabarbarasúpu um miðjan maí.

Vorlaukar ódýrir gleðigjafar EÐA Ódýrir vorlaukar, góðir gleðigjafar
Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, dalíum, anímónum og liljum. Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum á meðan maður bíður eftir því að það verði nógu heitt til að nota stuttbuxurnar og skunda út í garð og gróðursetja þær í sumarylnum.

Að láta kartöflurnar forspíra
Til að tryggja góða uppskeru í kartöfluræktun þá eru kartöflurnar látnar spíra í 6 vikur á björtum stað áður en þær eru settar niður í beð. Hyggilegt er að setja kartöflurnar niður þegar hitinn í jarðveginum í kartöflubeðinu hefur náð 7-8°C. Ég hef það eftir sérfræðingi að lítið gerist hjá kartöflunum liggi þær í köldum jarðvegi, eini ávinningurinn væri frekari líkur á sjúkdómum.

Skerpa klippur og snyrta runna
Á þessum árstíma er tímabært að hugleiða hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Beittar klippur gefa hreinan skurð og sár gróða fyrr og svo minnka þær líkur á sveppasýkingu í trjánum. Alltaf ætti þó að þrífa og sótthreinsa klippur vel áður en farið er í snyrtingar. Hentugast er að klippa limgerði A-laga því þá er limgerðið breiðast neðst og mjókkar eftir því sem ofar dregur.

Afmælisár - Sumarhúsið og garðurinn 30 ára

Á árinu 2022 fagna þau Auður I. Ottesen ritstjóri Sumarhússins og garðsins og Páll Jökull Pétursson þrítugasta útgáfuári blaðsins. Þau hjón hafa alls gefið út 113 tölublöð, fyrstu sjö árin var tímaritinu dreift frítt til sumarhúsaeigenda undir nafninu Sumarhúsið. Árið 2000 var blaðið boðið í áskrift. Nafnabreyting var 2002 þegar garðyrkjuritið Við ræktum, garðyrkjuriti sem þau Auður og Páll Jökull gáfu út í 3 ár var sameinað Sumarhúsinu og bættist þá garðurinn við nafnið.

Afmælisár hjá Sumarhúsinu og garðinum

Sumarhúsið og garðurinn fagnar 30. útgáfuárinu 2022.

Sumarhúsið og garðurinn stóð að vinsælum vörusýningum í Laugardalshöll og Fífunni á árunum 2002-2008 og hefur gefið út níu bækur í bókaflokknum Við ræktum og bækurnar Draumagarðinn og 12 Glæsilegir garðar. Umfjöllunarefni bókanna er garðmenning, hönnun, gróður og ræktun.

Frá 2011 flutti útgáfan á Selfoss, þar sem boðið er upp á námskeið og markaðsdaga og opin hús fyrir áskrifendur og lesendur. Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins – Stefnumót við Múlatorg er haldin í júli ár hvert, þar er boðið upp á tónlistaupplifun, fræðslu og fjölbreyttan markað. Í ár verður sumarhátíðinn tileinkuð tímamótum blaðsins og haldið verður veglega upp á þrítugasta útgáfuárið. Sumarhátíðin okkar, Stefnumót við Múlatorg verður haldið í ár laugardaginn 16. júlí að Fossheiði 1 á Selfossi.

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn er lífsstílstímarit, umfjöllunarefnið; sumarhúsalíf, garðahönnun, garðyrkja, smíðar og handverk og ferðalög um íslenska náttúru. Á árinu 2022 verða gefin út 4 tölublöð – hvert þeirra 100 síður af glæsilegu efni.

Njótum vetrarins

Stormar, rigning og snjókoma í bland við bjart og fallegt gluggaveður einkennir þorrann. Gott er að gera vel við sig í mat í inniverunni, lesa eða dunda innandyra. Gott að gera plön fyrir sumarið, huga að garðhúsgögnunum hafi maður bílskúr og jafnvel mála innandyra. Spurning hvort það vanti nýjar gardínur í bústaðinn, fleiri púða í sófann eða gera sér ferð í garðyrkjuverslanir og skoða fræframboð.

Laufið í gróðurbeðunum er sem teppi sem hlífir plönturótum og viðkvæmum nýgræðingi sem er að vakna til lífsins. Leyfið því að liggja fram í byrjun júní, það moðnar og maðkarnir taka sinn toll því þeir koma svangir upp á yfirborðið eftir veturinn. Þegar svo kemur að því að hreinsa beðin eru leifarnar af laufinu settar í moltutunnuna eða grafnar niður á milli trjánna þar sem þær verða að næringarríkri mold með tímanum. Stöngla af fjölærum plöntum má brjóta og leggja yfir plönturnar til að hlífa þeim því enn er von á frostnóttum þegar heiðskírt er. 

Nú má fara að huga að hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Náttúran er í vetrardvala og þá er tilvalið að klippa limgerðið og hlúa að því með því að setja greinar yfir viðkvæman gróður eða sveipa striga til að verja sígræna runna sterkri vorsólinni.

Vorlaukarnir eru gleðigjafi
Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, glitfíflum (Dahlia), snotrum (Animone) og liljum (Lilium). Úrval af þeim eru nú til í garðyrkjuverslunum. Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum meðan maður bíður eftir því að það verði nógu hlýtt til að bregða sér í stuttbuxur og skunda út í garð og gróðursetja þær í sumarylnum, en það er ekki komið að því alveg strax.

Haustverkin í garðinum

Haustverkin í garðinum

Texti: Auður I Ottesen. Myndir: Páll Jökull Pétursson

Litadýrð haustsins er heillandi. Græni litur laufblaðanna fjarar út og í staðinn birtast allir litirnir í gula og rauða litaskalanum. Er laufin falla þá er gott að raka þau af grasfletinum og setja í beðin til að hylja mold og viðkvæmar plöntur. Sumir grafa laufblöðin niður í holur til að láta þau moðna þar og breytast í jarðveg. Þar verða þau að fyrsta flokks fæði fyrir ánamaðkana og örverur sem launa örlætið með úrgangi sínum sem er svo til gagns fyrir rætur sem næring.

Grænmetisuppskera_150911_MG_1126.jpg

Uppskeran í hús

Haustið er uppskerutími matjurta. Fátt jafnast á við góðan vetraforða og aðgengi að eigin grænmeti. Kartöflurnar fara í rimlakassa og eru geymdar á myrkum og stað þar sem hitinn fer ekki niður fyrir 4°C. Gulrætur og annað rótargrænmeti er gott að geyma í kassa umlukið sandi og geymast við sömu aðstæður og kartöflur. Káltegundir geymist í kæli þar sem rakastig er hátt og eða soðið niður og frysti; gufusýð í 2-4 mínútur og snöggkæli undir kaldri vatnsbunu áður en ég set í krukkur og box og set í frysti. Svo er hægt að mjólkursýra grænmeti og eiga til vetrarins. Stilksellerí þurrfrysti ég og nota svo í morgundrykkinn en uppistaðan í drykknum er salat, banani og lárpera. Í sumar hef ég verið að gera tilraun með að frysta salatið því nóg er af því enn í garðinum. Sú aðferð sem reynist mér best er að setja salatið með vatni í blandarann, tæta það í spað og frysta síðan löginn í krukku. Síðan þegar ég ætla að nota það þá læt ég það þiðna þangað til frosinn klumpurinn losnar úr krukkunni og er hann þá settur í blandarann sem uppistaðan í morgundrykknum. Krydd ýmist þurrka ég eða frysti í vatnsteningum.

 

Haustlaukar – nú er tíminn
Úrval haustlauka í garðyrkjuverslunum hefur sjaldan verið meira. Látið þá eftir ykkur því ódýrari blóm fást varla. Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geti verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. Sveppagró, sem eru smitberar fjölmargra sveppasjúkdóma í gróðri, berast með vindinum á haustin. Hyggilegt er að klippa eða snyrta ekki trjágróður og runna sem útsett eru fyrir sveppasmiti. Sveppir eiga greiða leið í opin sár sem gróa ekki fyrr en nýtt vaxtartímabil hefst næsta vor. Heppilegast er að klippa trjágróður seinni hluta vetrar og snemma á vorin, frá febrúar og fram í byrjun maí.

Góður tími til að gróðursetja
Gróðursetning og flutningur á trjám, runnum og jurtkenndum fjölærum plöntum er heppilegur á meðan plantan er ekki í vexti. Þegar plantan er í vexti er hún viðkvæm fyrir flutningum. Ólafur Njálsson garðyrkjusérfræðingur segir 110% ávinning af því að gróðursetja plöntur á haustin og veturna. Ástæðan er sú að seinni part sumars og á haustin vaxa rætur plantna einna mest. Ofanvöxtur er hættur, öll næring sem framleidd er í blöðunum fer niður í rætur. Ástæðan er svo ekki síður sú að á vorin er gróður tilbúinn að vaxa strax og hlýnar í mars, apríl og maí sem er það forskot sem skilar sér í betri sumarvexti plöntunnar. Notið endilega góðviðrisdagana í haust og vetur þegar jörð er þíð til að gróðursetja. Ekki þarf að vökva eftir gróðursetningu á þessum árstíma, rigningin sér um vökvunina. Haustið er líka góður tími til að flytja plöntur og taka fjölæringa upp sem hafa vaxið vel, skipta þeim og planta aftur. Það sem af gengur er alltaf þakkarverð gjöf til vina og vandamanna.

Auður_sáning_MG_5466.jpg

Tilvalið að safna fræi
Fátt er skemmtilegra en að rækta sitt eigið og því tilvalið að verða sér úti um fræ af runnum, trjám eða fjölærum jurtum, jafnvel sumarblómum í haust og vetrarbyrjun. Nær öll ber með aldinkjöti þurfa kaldörvun og því er sáð í bakka fyrir veturinn og sáningarbakkinn geymdur úti við. Tryggja þarf að mýs eða fuglar nái ekki í berin og er klókt að setja glerplöntu ofan á sáningabakkann til að tryggja rán. Inni í könglum sígrænna tegunda eru fræ og í reklum birkis og elritrjáa. Fræ af þessum tegundum þurrkar maður við stofuhita í nokkra daga og geymir það svo á þurrum en svölum stað til vorsins og sáir þá.

Bæta við uppáhalds fjölæringum

Fjölærar jurtkenndar plöntur njóta æ meiri vinsælda í görðum. Margir eru með sínar uppáhalds þegar í garðinum eða sumarhúsalandinu og hafa í sumar borðið augum nýjar heillandi tegundir sem gætu passað svo vel við það sem fyrir er í garðinum eða í ný beð eða blómaengi í sumarhúsalandinu. Haustið er góður tími til að skipta fjölæringum í garðinum og eftir það er kjörið að nota plönturnar sem verða til sem skiptimynt og bítta við aðra garðeigendur sem eiga þær tegundir sem færu vel í þínum garði. Svo er úrval fjölæringa enn til sölu í gróðrarstöðvunum og klókt er að koma við og skoða úrvalið og festa kaup á einni og einni. Ávinningurinn við haustgróðursetningu er að plönturnar ná að festa rætur og koma sér fyrir í jarðveginum og vaxa síðan kröftugar upp næsta sumar.

 

Arfi_IMG_1153.jpg

Illgresi

Síðsumar er snjallt að fara eina umferð í garðinum og stinga upp og reita illgresi þar sem við viljum ekki að það vaxi. Krossfífill, arfi, lambaklukka, fíflar, skriðsóley og njóli eru algengar tegundir sem eru ágengar og að auki elfting sem erfitt getur reynst að uppræta. Handreiting er heppileg í blómabeðum eftir að arfasköfunni hefur verið beitt undir ræturnar. Krossfífil, arfa og dúnurt er auðvelt að ná upp og þá er gott að draga rótina varlega upp til að ná henni allri. Njóli og fífill eru með stólparót þannig að stunguskófla eða fíflaspaði reynist vel til að losa ræturnar og stinga upp. Skriðsóley er með skriðular rætur sem vaxa frá móðurplöntunni. Stingið upp móðurplöntuna og dragið ræturnar upp sem gott getur reynst að stinga undir til að losa þær í jarðveginum. Ef illgresið er mikið í stórum beðum getur reynst árangursríkt að breiða dagblöð á milli trjáa, runna og fjölæringanna eða undir limgerðin sem fyrir eru með því að krossleggja þau yfir beðið og fergja þau síðan með mold eða sandi. Dagblöðin eru 1-2 ár að brotna niður og á meðan nær illgresið ekki að vaxa né í birtu. 

Námskeið á vorönn 2021

Vinsæl námskeið

Sumarhúsið og garðurinn hefur staðið fyrir farsælum námskeiðum frá árinu 2009 í garðyrkju, garðahönnun og handverki. Námskeiðin hafa notið vinsælda og hafa rúmlega 2500 manns sótt þau. Leiðbeinendur á námskeiðunum eru reynsluboltar og allir fagmenntaðir. Námskeið Sumarhússins og garðsins eru haldin víða um land í samvinnu við félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og fræðslumiðstöðvar, bæði í staðar- og í fjarnámi. Sumarhúsið og garðurinn hefur komið sér upp góðri aðstöðu til námskeiðahalds í Fossheiði 1 á Selfossi. Þar er fín aðstaða bæði til bóklegrar- og verklegrar kennslu í tveimur gróðurhúsum og í sérhönnuðum sýningar- og kennslugarði. 

Hlaðbær 18_CRW_5437.jpg

Í samkomubanninu í ársbyrjun 2020 færðust námskeið Sumarhússins og garðsins yfir á netið í fjarkennslu. Notast var við Zoom fjarfunda forritið. Rúmlega 300 nemendur sóttu námskeiðin sem reyndust árangursrík og verður boðið uppá þau aftur. Auk fjarnámskeiða á netinu verður boðið uppá staðarnámskeið á vorönn 2021. Bæði í Fossheiði 1 á Selfossi og víða um land á vegum fræðslumiðstöðva og fyrirtækja.

Að gleyma stað og stund

Ítrekað hafa rannsóknir sýnt að nálægð við gróður og ræktun hefur róandi og góð áhrif á líðan fólks. Hún reynist góð til að losa um streytu og er einnig árangursrík meðferð fyrir þá sem þjást af kvíða og þunglyndi. Ræktun og umhirða plantna reynist vel til að gleyma stað og stund. Hvort sem ræktunin er á stórum skala eða í matjurtahorni í garðinum eða á svölunum. Að rækta sitt eigið, hvort sem það er garðagróður, matjurtir eða kryddplöntur gefur líka af sér og er fjárhagslega hagkvæmt. 

Verðlisti 2021

Staðarnámskeið í Fossheiði 1, Selfossi

Námskeiðin í Fossheiðinni eru í bland bókleg og verkleg. Innifalið eru veitingar, nemar fá vönduð námsgögn og hafa með sér plöntur sem þeir hafa sáð eða græðlinga ef það á við. Auk þessa 3 tölublöð af tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn. 

3ja tíma námskeið kr. 9.900.- á mann
5 tíma námskeið í matjurtarækt kr. 19.800.- á mann

• Ræktaðu þitt eigið krydd.
• Ræktaðu þitt eigið grænmeti.
• Æti hraukurinn – farið er í uppbyggingu hraukbeða sem gefa allt að mun betri uppskeru en í hefðbundnum ræktunarbeðum.
• Græn þök, lóðréttir gróðurveggir og illgresisfrí gróðurbeð.
• Blómstrandi runnar og rósir
• Ræktun berjarunna
• Borðaðu blómin í garðinum – ræktaðu æt blóm til að gera matinn fallegri.
• Fuglar sem sækja í garðinn og njóta lífsins í skógi – smíði fuglahúsa og fæðustalla.
• Klipping og umhirða runna og trjágróðurs.

Fjarnámskeið

Á vorönn 2021 býður Sumarhúsið og garðurinn upp á fjölda námskeiða í fjarnámi. Námskeiðin eru 90 mínútur hvert. Notast er við Zoom fjarfunda forritið. Verð fyrir námskeiðið er kr. 60.000 fyrir allt að 16 nemendur. Verð fyrir hvern nema umfram 16 er kr. 3.500. Hámarksfjöldi er 30. Nemendur á fjarnámskeiðum fá aðgang að lokaðri hópsíðu á Fésbókinni í mánuð eftir námskeiðið. Þar geta þeir skoðað námsefnið, spurt leiðbeinandann og miðlað reynslu sinni og spjallað við aðra nemendur.

Fjarnámskeið á vorönn 2021

• Pottaplöntubarinn
• Lífræn ræktun – skiptirækt, áburður, lifandi mold.
• Forræktun mat- og kryddjurta.
• Mat- og kryddjurtarækt – útirækt
• Æti hraukurinn – farið er í uppbyggingu hraukbeða sem gefa allt að mun betri uppskeru en í hefðbundnum ræktunarbeðum.
• Fjölæringar eru heillandi heimur I
• Fjölæringar eru heillandi heimur Il
• Græn þök, lóðréttir gróðurveggir og illgresisfrí gróðurbeð 
• Blómstrandi runnar og rósir
• Ræktun berjarunna
• Borðaðu blómin í garðinum – ræktaðu æt blóm til að gera matinn fallegri.
• Fuglar sem sækja í garðinn og njóta lífsins í skógi – smíði fuglahúsa og fæðustalla
• Klipping og umhirða runna og trjágróðurs.

Nánari tímasetningar auglýstar síðar.

Nánari upplýsingar um námskeiðin og skráning hér.

Dagatal 2021

Loftmyndir af Íslandi prýða dagatalið fyrir 2021 að þessu sinni. Ljósmyndarinn Páll Jökull Pétursson hefur ferðast víða um land á undanförnum árum sem leiðsögumaður og ljósmyndari og hefur fangað fegurð landsins sem þið fáið hér að njóta í heilt ár.

Hægt er að panta dagatalið hér og fá það sent heim.

2021 Calendar.png

Takið vel á móti nýju ári!

Við sendum heim.

Lauftré á Íslandi komin úr prentun

Lauftré á Íslandi er nú komin aftur, önnur prentun.

Lauftré á Íslandi er nú komin aftur, önnur prentun.

Bókin Lauftré á Íslandi sem er númer 2 í bókaflokknum Við ræktum er nú loks fáanleg á ný. Bókin hefur verið uppseld í nokkur ár, en hún var prentuð fyrst árið 2004 en er nú komin út í annarri prentun. Við höfum bætt við fjölda tegunda og nýjum myndum auk þess að hafa uppfært og bætt við upplýsingum við eldri tegundir.

Hægt er að forpanta bókina á vefnum okkar og fá hana senda heim í pósti. Verðið er aðeins kr. 5.500.- með heimsendingu.

Markaður Sumarhússins og garðsins

Á morgun laugardaginn 27. júní verður fjórði laugardagsmarkaður Sumarhússins og garðsins á þessu sumri. Við verðum með plöntur og bómaker til sölu í garðinum okkar í Fossheiði 1 á Selfossi. Grænmetisplöntur, kryddplöntur og fjölæringar í leirpottum og steinkerjum. Opið verður kl 14-17.

Helga-Thorberg_9478.jpg

Heiðursgestur markaðarins er Helga Thorberg garðyrkjufræðingur og leikari. Hún er einstaklega skemmtileg kona sem mörgum er minnistæð sem Henrietta í gríni með Eddu Björgvinsdóttur. Helga rak blómabúð í miðbæ Reykjavíkur í áravís og eftir að hún lauk námi frá Garðyrkjuskólanum hefur hún að mestu unnið við blómaskreytingar. Hún mun spjalla við gesti og segja frá tildrögum bókar sinnar Sexbomba á sextusaldri sem gefin var út af Sumarhúsinu og garðinum.

Mikið úrval steinkerja frá Steinasteini. Fleiri gerðir komnar síðan síðast. Kerin eru endingargóð, þola vetrarfrost og haggast ekki í roki. Við bjóðum samplantanir með sígrænum fjallaplöntum og kryddi í leirpottum. Einnig jarðarberjaplöntur og ferskir tómatar og æt sumarblóm, grænmetis- og kryddplöntur auk nokkurra tegunda af fjölærum tegundum til sölu. Útbúum eftir pöntun steinker frá Steinasteini með fjallaplöntum á svalirnar, veröndina og sem skreytingar á leiði.

Bjóðum einnig forræktaðar krydd- og grænmetisplöntur úr ræktun garðyrkjufræðinganna Auðar I. Ottesen og Óla Finns. Óli ræktar sínar plöntur í nýstofnuðu fjölskyldufyrirtæki Kím. Fjórar plöntur saman kosta aðeins kr. 550.-

Sáning kryddjurta

Nú er vorið að nálgast og kominn tími til að sá fyrir kryddurtunum svo að plönturnar verði tilbúnar þegar hlýnar í veðri. Hér er stutt vídeó sem segir frá því þegar Auðir ritstjóri byrjaði að sá fyrir vorið. Námskeiðin okkar eru einnig að hefjast. Við hvetjum ykkur til að skrá ykkur, það eru ennþá nokkur pláss laus á næstu vikum.

Gjafabréf á fræðandi upplifun

Viltu gefa gjafabréf á fræðandi upplifun? Gjafabréfin okkar vaxa með þér og eru kærkomin gjöf til starfsfólks, vina og ættingja.


Við bjóðum upp á 2 gerðir af gjafabréfum á annað hvort 3 eða 5 tíma námskeið.
Með þeim geturðu valið um mismunandi námskeið í þeim verðflokki.


Verð:
3 tíma námskeið kr. 7.800
5 tíma námskeið kr. 15.000

Aðventu- og jólablað Sumarhússins og garðsins

s&g_kapa_5tbl_2019-600px.jpg

Ritstjórnin komst svo sannarlega í hátíðarskap við vinnslu blaðsins enda troðið af fögrum skreytingar hugmyndum, heimagerðum jólagjöfum og notalegu lestrarefni sem gefur yl í hjarta á aðventu. Við biðjum þá áskrifendur okkar sem hafa flutt nýverið að senda okkur nýtt heimilisfang svo blaðið berist á réttan stað.

Sveitasæla á forsíðu

Skáldakonurnar Guðrún Eva Mínervudóttir og Soffía Bjarnadóttir segja frá þörfinni að komast út úr ys og þys hversdagsins og umlykja sig náttúru. Guðrún Eva flutti til skáldabæjarins Hveragerðis fyrir nokkrum árum þar sem hún skrifar allar sínar bækur.

Rósina í hnappagatið að þessu sinni fær Hafsteinn Hafliðason fyrir sitt óeigingjarna starf í fræðslu um plöntur á samfélagsmiðlum. Jóhann Óli segir frá fiðruðum nýbúum Íslands, Grænn markaður gefur tóninn í skreytingum yfir hátíðarnar og sínum frá skreytingum nemenda í Garðyrkjuskólanum á blómaskreytingabraut. Bergsveinn Arelíusarson gefur uppskrift af ABBA brauði og rjúpusósu sem fullkomnar hátíðarstundina og margt margt fleira.

Varstu að flytja?
Hafi blaðið ekki borist til þín áskrifandi góður vegna breytinga á heimilisfangi eða að póstburðurinn hafi brugðist þá hafið vinsamlega samband í síma 578 4800, eða sendið okkur upplýsingar á netfangið audur@rit.is og við sendum þér eintakið þitt um hæl.

Nýtt námskeið hjá Sumarhúsinu og garðinum

LED---Landscape-600px.jpg

Næstkomandi laugardag höldum við námskeiðið "Ræktun undir ljósi". Námskeiðið er haldið í Fossheiði 1 á Selfossi frá 11-14. Þar kennir Óli Finnsson garðyrkjufræðingur bestu aðferðirnar í inniræktun með ljósum og hvernig rækta má tómata, gúrkur, chili-pipar eða krydd.

Þar verður farið yfir hvaða ljós sé best að nota eftir hvaða plöntur er verið að rækta, hvaða yrki henta best til inniræktunar og hvaða rými eru hentugust. Einnig verður vatnsræktun kennd og farið yfir næringargjöf undir ljósum. Gefin verða handhæg ráð sem gera alla að sérfræðingum í inniræktun.

Óli Finnsson er garðyrkjufræðingur af ylræktarbraut og hefur mikla reynslu af uppsetningu og ræktun í heimarýmum. Námskeiðið er 3 klukkustundir. Einstaklingsmiðuð kennsla og nemendur eru að hámarki 10.

Kennari: Óli Finnsson garðyrkjufræðingur
Hvenær: Laugardaginn 9 nóvember 2019 kl 11:00-14:00
Staður: Fossheiði 1, 800 Selfossi
Verð: kr. 7.800

Skráning á: http://www.rit.is/namskeid/kryddjurtir/krydd-nrhxx-jtsjk-9ylky-9jax8

Smíðaðu vindmyllu fyrir 5000 krónur

2 vindmyllur saman.

2 vindmyllur saman.

Daniel Connell að setja saman vindmyllu.

Daniel Connell að setja saman vindmyllu.

Til að framleiða sína eigin raforku er verðmiðinn oft það hár að fjárfestingin myndi ekki borga sig nema á mörgum árum enda rafmagn tiltölulega ódýrt á Íslandi. Fáir hafa bæjarlæki eða vatnsfall sem hægt er að virkja og sólarsellur virka hér fínt yfir sumartímann. Ekki skortir vindinn á Íslandi en 600-1000 Watta vindmyllur sem duga fyrir sumarhús kosta skildinginn. En hvað ef þú gætir smíðað þína eigin vindmyllu fyrir 5.000 kr?

Í nýjasta tölublaðinu sögðum við frá Daniel Connell sem er nýsjálenskur þrívíddar- og ferlahönnuður og hélt nýverið námskeið á vegum Töfrastaða í vindmyllusmíði úr endurunnum hráefnum í ágústmánuði síðastliðnum. Daniel hefur ferðast um heiminn undanfarin 4 ár að kenna smíði á vindmyllum. Námskeiðið var haldið á Býli andans í Grafningi og skipuleggjandi þess var Mörður G. Ottesen. Námskeiðið var fjölsótt og komust færri að en vildu. Nemendurnir smíðuðu vindmyllu saman með aðstoð kennarans og var vindmyllan sett upp á bænum. Hér má sjá kennslumyndband sem Daniel bjó til um smíði sinnar eigin vindmyllu fyrir 5.000 kr.