Sumarklipping

Í sprettunni er lag að formklippa limgerðin til að halda lögun þeirra og eftir að blómgun líkur má huga að snyrtingu runna sem blómgast á greinar sem uxu á síðasta ári. Birkikvistur og sigurkvistur eru dæmi um tegundir sem blómstra á tveggja ára greinum og flestar runnarósir eiga það sameiginlegt með þeim.

Með steinum fæst náttúrlegt yfirbragð í garðinn og ef þeir eru í stærra lagi fanga þeir athygli barna sem leiksvæði til að príla í. Með þeim má móta landslag, nota þá til stuðnings við upphækkuð beð og til að fanga sólarylinn sem þeir gefa svo frá sér er kólnar á næturnar. Í æta hraukbeði sýningar- og kennslugarðs Sumarhússins og garðsins er 1,5 tonna steinn sem fluttur var í garðinn í vor.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.32.08.png

Slöngusúra (Polygonum bistorta ssp. carneum) er ágætis matplanta. Blöðin eru með súrum keim og góð í salöt og steikt eða léttsoðin. Meyjarsköldur (Ligularia dentata) með sín fallegu dökku blöð er líka ætur. Leggirnir sem vaxa upp á vorin eru notaðir í matseld.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.33.34.png

Í júlí er blaðvöxtur í hámarki og er líða tekur á mánuðinn og í ágúst þroskast aldin og ber og undir lok ágúst þroskast brumin og plönturnar ljúka vexti. Þá tekur rótarkerfið við sér og það er tilvalinn tími til að nýta í flutning á trjám og runnum. Vanda þarf til verksins, ef verið er að flytja eldri tré og runna þá þarf að rótarstinga kringum plöntuna að vori eða jafnvel árið áður. Rótarhnausinn sem fylgir plöntunni þarf að vera í samræmi við stærð hennar og stingið hann varlega upp þannig að moldin losni sem minnst frá rótunum.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.35.48.png

Túlípanalaukar setja fallegan svip á beðin er þeir eru í blóma í júní og júlí. Blöð og blóm eru æt og er tilvalið að nýta nokkur blöð og blóm í matseld. Varist að taka öll blöðin því laukurinn þarfnast þeirra til stækkunar og þroska. Er blómin falla og blöðin verða rytjuleg er tilvalið að hafa sáð salatfræum og rækta salat í sama beði. Það vex svo langt fram á haust og hylur túlipanablöðin.

 

Hlúð að garðhúsgögnunum

Ef útihúsgöngin eru farin að láta á sjá er lag að hlúa að þeim. Grámi sest á timburhúsgögn ef þau eru ekki fúavarin reglulega. Hann má fjarlægja með vatnsþynnanlegri efnablöndu sem fæst í byggingavöruverslunum. Efninu er úðað á húsgögnin, það er svo látið virka í svolítinn tíma og skolað af með vatni. Stundum þarf að endurtaka meðferðina og að lokum þurfa húsgögnin að þorna. Ef þörf er á þá er sandpappír gagnlegur til að pússa viðinn áður en góð fúavörn er borin á húsgöngin eða þau máluð.

Garðhúsgögnum úr stáli hættir til að ryðga. Vírbursti kemur að góðum notum til að losa um ryðið og síðan þarf að hreinsa og pússa. Að lokum þarf að grunna þau og mála með málningu sem ætluð er á járn.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.26.43.png

Auðvelt að fjölga graslauk

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.11.55.png

Graslaukur er fjölær lauktegund sem auðvelt er að fjölga með skiptingu að vori eða hausti. Stingið plöntuna upp eða hluta hennar, toga rótina í sundur og fáið  þannig fjölda nýrra plantna. Í matseld eru bæði blöð og blóm notuð, laukbragðið er daufara af blómunum en blöðunum og eru þau falleg í salat og ýmsa rétti.

Sígræn og til skrauts allt árið

Í Fossheiðargarðinum þekja hnoðrar, steinbrjótar og húslaukur gróðurbeðin og tegundirnar eru í kerjum og pottum. Litbrigði tegunda innan ættkvíslanna eru einstök. Blaðlitir ná yfir allan grænskalann, rauða tóna og gula. Mismunandi blaðgerð og fegurð blómanna á einnig stóran þátt í því að menn hafa nýtt sér þessar ættkvíslir á listrænan hátt.

Sáning beint í matjurtagarðinn

Gulrætur, hnúðkál, klettasalat, mizunakál, næpur, pastinakka, radísur, salat, sinnepskál og spínat er ekki þörf á að forrækta og hægt er að sá þeim beint út í matjurtagarðinn í maí -júní. Salat, spínat og radísur eru dæmi um tegundir sem hægt að sá nokkrum sinnum yfir sumarið. Heppilegur jarðvegshiti við sáningu er talinn vera um 6-7°C. Sáð er í hæfilega raka mold og tryggja skal að jarðvegurinn þorni ekki meðan fræin eru að spíra.

Áburður í matjurtagarðinn

Áburður er ýmist lífrænn í formi moltu, saurs og hlands búfjár, fiskimjöls, þörungamjöls eða svokallaður tilbúinn áburður. Tilbúinn áburður er unninn úr andrúmsloftinu og jarðefnum. Plöntur nýta sér um 18 – 20 frumefni til að geta vaxið og fjölgað sér. Í ræktun er þörf á að bregðast við ef eitthvert efnanna skortir til að tryggja góða uppskeru.

Nýtt útlit - glæsilegt blað

SG_4tbl_2017.jpg

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn tók nokkrum stakkaskiptum við útkomu haustblaðsins okkar, 4. tbl. 2017, þar sem nýr útlitshönnuður hefur tekið við útlitshönnun blaðsins. Það er Sóley Stefánsdóttir grafískur hönnuður sem hefur tekið við því starfi sem Páll Jökull hefur sinnt síðustu 20 árin við umbrot tímaritsins. Við sjáum nú þegar nokkrar breytingar og aðrar áherslur sem fylgja nýjum starfskrafti, en Sóley hefur í fjölda ára haft mikinn áhuga á umhverfismálum. 

Ein af breytingunum sem hafa nú þegar orðið er að við skiptum um pappír, erum nú með aðeins þykkari, mattan pappír sem þykir hafa umhverfisvænna yfirbragð.

Við hlökkum til að fá að vinna með Sóleyju við að gera blaðið okkar ennþá betra og fallegra.

Veturinn gengur í garð

Litríkur vetrarmorgun á Selfossi, lognið á undan storminum þar sem fyrsti alvöru vetrarstormurinn er yfirvofandi. Garðurinn okkar í Fossheiði 1 er kominn í vetrarbúning, síðustu laufin eru að falla og ein stök rós stendur ennþá og býður frostinu birginn. Tjörnin er frosin með litríkum laufum eins og sýningarskápur fyrir liðið haust. Vínberin í gróðurhúsinu hafa náð fullum þroska, en verða kannski ekki að rauðvíni þetta árið. Ég skutlaði garðhúsgögnunum inn til þess að þau fari ekki á flug þegar lægðin gengur yfir seinnipartinn, minni ykkur á að gera slíkt hið sama.

 

Gróðursetning góð á haustin

Haustið er góður tími til að gróðursetja tré og runna. Ólafur Njálsson garðyrkjusérfræðingur segir 110% ávinning af því að gróðursetja plöntur er fer að hausta. Ástæðan er sú að seinni part sumars og á haustin vaxa rætur plantna einna mest. Ofanvöxtur er hættur, öll næring sem framleidd er í blöðunum fer niður í rætur. Ástæðan er svo ekki síður sú að á vorin er gróður tilbúinn að vaxa strax og hlýnar í mars, apríl og maí sem er það forskot sem skilar sér í betri sumarvexti plöntunnar.

Get ég notað laufin eitthvað?

Laufið er fjársjóður.

Laufið er fjársjóður.

Laufið er notadrjúgt
Er laufin fara að falla þá er gott að raka þau af grasfletinum og setja í beðin til að hylja mold og skýla viðkvæmum plöntum. Eins að setja laufblöðin í moltugerðarkassann eða grafa niður í beðin til að láta þau moðna þar og breytast í jarðveg. Þar verða þau að fyrsta flokks fæði fyrir ánamaðkana og örverur sem launa örlætið með úrgangi sínum sem er svo til gagns fyrir rætur sem næring.

Skjól gert með striga.

Skjól gert með striga.

Hlúa að því viðkvæma
Farsælt er að skýla viðkvæmum plöntum, því sem er nýgróðursett og ungum sígrænum plöntum. Tré sem eru nýgróðursett þurfa stuðning og gott er að festa þau á þrjá vegu við stoðir svo að ræturnar, sem eru að festa sig á nýjum stað, rifni ekki lausar.

Könglar broddfuru.

Könglar broddfuru.

Fræ úr reklum og könglum
Inni í könglum sígrænna tegunda eru fræ og í reklum birkis og elritrjáa. Fræ af þessum tegundum þurrkar maður við stofuhita í nokkra daga og geymir svo í ísskáp til vorsins og sáir þá.

Fyrirheit um fagurt vor

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Haustið er dásamlegur tími, náttúran breytir um lit úr grænu í fagurgula tóna, roðarauða og koparlita. Svo fer laufið að falla sem sæng yfir lággróðurinn og við potum niður haustlaukunum, túlípönum, páskaliljum og krókusum. „Haustlaukarnir eru fyrirheit um fagurt vor,“ sagði Hafsteinn Hafliða, er hann vann í Blómaval sem þá var við Sigtún, og er það hárrétt.

Haustlaukar – nú er tíminn
Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geta verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. 

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Hvítlaukur auðræktanlegur á Íslandi
Ég hvet þá sem ekki hafa prófað að rækta hvítlauk til að prófa. Fáanleg eru í garðyrkjuverslunum harðgerð hvítlauksyrki sem henta vel til ræktunar hér á landi. Sjálf er ég að prófa 8 ný yrki en ég hef ræktað hvítlauk í nokkur ár með góðum árangri. Hvítlaukurinn er settur niður á haustin eins og túlípanalaukarnir, því hvítlaukurinn þarf kaldörvun til að mynda rif. Veljið skjólgóðan og sólríkan stað með djúpunninni, loftríkri og frjórri mold. Útsæðislaukurinn er tekinn í sundur og stærstu rifin notuð til framhaldsræktunar. Hvítlaukurinn þarf að fara 8-10 cm niður og milli þeirra og raða er heppilegt að vera með 10 cm.

Sveppagró á flögri á haustin

Ryð í alaskaösp.

Ryð í alaskaösp.

Sveppagró, sem eru smitberar fjölmargra sveppasjúkdóma í gróðri, berast með loftinu síðsumars og á haustin. Því er óheppilegt að klippa trjágróður og runna því sveppir eiga greiða leið í opin sár sem gróa ekki að fullu fyrr en nýtt vaxtartímabil hefst næsta vor. Heppilegast er að klippa trjágróður seinni hluta vetrar og snemma á vorin, frá febrúar og fram í byrjun maí.

Nammi gott með salati og eggjasnafs

Er ég var barn útbjó móðir mín heimsins besta sumarrétt sem við systkinin höfðum mikið dálæti á. Eggjasnafssúrmjólk með salati og ávöxtum. Þeir sem hafa ræktað salat í sumar ættu að prófa og nóg er úrvalið af salati í verslunum þessa dagana. Það sem mamma notaði í réttinn var höfuð af blaðsalati, 2 egg sem voru hrærð með 2 matskeiðum af sykri þar til blandan var freyðandi og 7 dl. af súrmjólk. Auk þessa allskyns ávextir sem til eru hverju sinni. Brytjað salat er sett í fallega víða skál, súrmjólkur eggjasnafsi er helt yfir og ofaná eru sett bláber, epli, vínber eða þeir ávextir sem þér þykir bestir.